„Ég er ekki sammála því að Ólafur hafi stoð fyrir sín gífuryrði í fréttatilkynningu Samkeppniseftirlitsins,“ segir Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, um fréttatilkynningu sem Ólafur Stephensen, formaður Félags atvinnurekenda, sendi frá sér á dögunum. Ólafur sendi frá sér aðra tilkynningu í dag þar sem hann ítrekar fyrri orð sín og gerir leturbreytingar á tilvitnaðri fréttatilkynningu Samkeppniseftirlitsins máli sínu til stuðnings.
Frétt mbl.is: MS hafi víst leynt gögnum
Ari segir mikinn mun vera á fullyrðingum í fréttatilkynningu Samkeppniseftirlitsins sem Ólafur vísar til og þeim „gífuryrðum“ sem hann láti frá sér sjálfur.
„Hann sagði í sinni tilkynningu um daginn að MS ætti ekki að komast upp með að leyna gögnum, eins og hún hefði gert. Þannig bendir orðalagið til þess að MS hafi vísvitandi leynt gögnum. Samkeppniseftirlitið fullyrðir hins vegar ekki að sú sé raunin,“ segir Ari.
Frétt mbl.is: Rekur á eftir Samkeppniseftirlitinu
Í tilkynningu sem Ólafur vitnar til í dag segir m.a. að „Samkeppniseftirlitið muni í samræmi við úrskurð áfrýjunarnefndar taka málið aftur til meðferðar. Jafnframt muni Samkeppniseftirlitið taka til rannsóknar hvaða ástæður liggja fyrir því að umræddur samningur var ekki lagður fyrir eftirlitið við rannsókn málsins, en viðurlög geta legið við því að halda upplýsingum frá eftirlitinu við rannsókn máls“.
Samkeppniseftirlitið sektaði MS um 370 milljónir króna í fyrra, en fyrirtækið skaut málinu til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Nefndin vísaði málinu aftur til eftirlitsins, en m.a. benti hún á að tiltekinn samningur milli MS og Kaupfélags Skagfirðinga hefði ekki komið fram í rannsókn Samkeppniseftirlitsins, en MS byggði m.a. á honum í málflutningi fyrir nefndinni.
„Áfrýjunarnefnd hefur í dag lagt fyrir Samkeppniseftirlitið að rannsaka nánar verðlagningu MS á hrámjólk til annars vegar tengdra fyrirtækja og hins vegar keppinauta MS samstæðunnar. Að mati áfrýjunarnefndar er þetta nauðsynlegt þar sem MS lét, við meðferð málsins fyrir Samkeppniseftirlitinu, undir höfuð leggjast að upplýsa Samkeppniseftirlitið um samning við Kaupfélag Skagfirðinga, sem fyrirtækið síðan byggði málflutning sinn á fyrir áfrýjunarnefnd,“ segir m.a. í frétt Samkeppniseftirlitsins frá 16. desember.
Ari segir forsvarsmenn MS og KS hafa staðið í þeirri trú að Samkeppniseftirlitið hafi vitað af tilvist umrædds samnings. Hann skýtur föstum skotum á eftirlitið og telur að með orðalagi ofangreindrar fréttar sé reynt að beina fingrum að MS fyrir atriði sem eftirlitið hefði sjálft átt að sinna betur. „Það er hins vegar ekkert einsdæmi að Samkeppniseftirlitið sé snuprað fyrir að sinna illa sinni rannsóknarskyldu,“ segir Ari.