Fótspor ehf. er hætt útgáfu frá og með deginum í dag, en fyrirtækið hefur m.a. gefið út Akureyri vikublað, Reykjavík vikublað, Ölduna, Birtu, Sleggjuna og ýmis bæjar- og landshlutablöð.
Frá þessu sagði Björn Þorláksson, ritstjóri Akureyri vikublaðs, á Facebook-síðu sinni nú fyrir stundu, en honum barst í dag tölvupóstur frá Fótspori þar sem þetta var tilkynnt.
Á Facebook-síðu sinni segir Björn m.a.:
„Skjótt skipast veður í lofti sem er ekkert nýtt í fjölmiðlaheiminum. Eftir fjögurra ára farsælt útgáfusamstarf með Ámunda Ámundasyni og syni beið mín bréf í pósthólfi áðan þar sem segir að Fótspor ehf. hætti frá og með deginum í dag allri útgáfustarfsemi. Tel rétt að upplýsa lesendur Akureyrar vikublaðs strax um þetta, enda tók ég fyrir hádegi við tveimur símtölum frá fólki vegna fyrirhugaðs efnis í blaðinu sem átti að koma út eftir sumarfrí, 13. ágúst næstkomandi.“
Björn segir í samtali við mbl.is að enginn fyrirvari hafi verið á uppsögninni. Hann útilokar þó ekki að halda áfram að ritstýra miðli á Akureyri en of snemmt sé að spá í því enn sem komið er.
„Ég hef heyrt í nokkrum samstarfsmönnum og þeir koma allir af fjöllum. Upplýsingaflæðið er ekki neitt og það eina sem við vitum er það sem kemur fram í bréfinu. Þetta gæti haft áhrif á tugi starfa gæti ég trúað.“
„Nú veltur það bara á aðstæðunum sem eru uppi hjá hverjum og einum. Í okkar tilfelli hafa verið tvö blöð á Akureyri í fjögur ár. Þetta eru ólík blöð og margir hafa talað um mikilvægi þess að hafa tvö blöð. Því er heldur ekki að leyna að fólk hefur haft samband við mig og hvetja mig til að leggja ekki árar í bát varðandi það að gefa út blað á Akureyri. Það gæti þó reynst öðrum ritstjórum þyngra sem þurfa sterkara bakland eins og Fótspor hefur verið að veita varðandi auglýsingar og fleira.“
„Allt of snemmt er þó að gera eitthvað annað en að ræða möguleikann á nýju blaði. Maður þarf kannski einhverra daga sorgarferli áður en maður fer að plana svoleiðis hluti. Þetta er vondur dagur fyrir blaðamennsku á Íslandi því þessi blöð hafa verið beitt og jafnvel verið í landsfréttum,“ segir Björn að lokum.
Í samtali við Vísi segir Ámundi að Vefpressan ehf. hafi keypt útgáfuréttin að blöðum sem Fótspor hefur hingað til gefið út.
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur mbl.is ekki náð tali af hvorki Ámunda Ámundasyni ábyrðgarmann blaða, né Ámunda Steinar Ámundason, framkvæmdastjóra.