Atvinnurekendur hafa svigrúm til að taka á sig launahækkanir sem samþykktar voru með kjarasamningum í vor og í sumar að sögn Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ. Hann segir atvinnurekendur verða að átta sig á þessu, annars gæti stefnt í átök á vinnumarkaði.
„Ef að þau fara fram úr sér að reyna að halda uppi sama hagnaðarhlutfalli þá getur bara hæglega reynt á forsendur kjarasamninganna,“ segir hann.
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, sagðist, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær, hafa töluverðar áhyggjur af því að markmið með kjarasamningum hefðu ekki náðst. Byggir hún áhyggjurnar á því sem fram kom í tekjublaði Frjálsrar verslunar.
„Rauðu strikin í kjarasamningum gætu hæglega farið að virka þegar samningarnir verða teknir upp í febrúar. Þá færi staðan á vinnumarkaði aftur á byrjunarreit,“ er haft eftir henni á Vísi.
Aðspurður hverjar líkurnar séu á því að það komi til þeirra átaka sem Gylfi lýsir, segir hann að ekki sé tilefni til að spá fyrir um slíkt. Hann bendir hins vegar á að Seðlabanki Íslands og greiningaraðilar spái því að verðbólgutakturinn hækki hratt á næstu mánuðum, sem geti raskað forsendum kjarasamninga.
„Það getur auðvitað hæglega farið þannig að það verði einfaldlega of mikið þannig að það raski forsendum kjarasamninga,“ segir hann og bætir við að ASÍ hafi talið að óhætt væri að ganga lengra í launahækkunum en atvinnulífið, Seðlabanki Íslands og stjórnvöld töldu.
„Afkoma fyrirtækjanna er dúndrandi góð og þau hafa svigrúm til að taka þetta á sig. Þau þurfa ekki að velta þessu út í verðlagið.“