Íslenski sjávarútvegsjöfurinn Kristján Loftsson er heillandi, vinalegur og langar að drepa helling af hval. Honum finnst raunar að Ástralía ætti ekki eingöngu að láta af andstöðu sinni við hvalveiðar, heldur ætti ríki sjálft að hefja dráp við strandir Queensland.
Einhvern veginn svona hefst grein sem birtist í The Sydney Morning Herald í morgun, þar sem m.a. er rætt við forstjóra Hvals hf.
„Það eru um 30.000 hvalir í Ástralíu sem fara upp með austurströndinni. Þrjátíuþúsund skepnur sem ferðast fram og aftur og þeim fjölgar um kannski 10% á ári. Þeir eru plága,“ er haft eftir Kristjáni.
Hann segir að eftir 10 ár verði hvalirnir orðnir 60.000 talsins og yfirvöld tilneydd til að loka höfninni í Brisbane. Allir fari á hausinn. Þá muni tilfellum fjölga þar sem hvalir stranda. „Þetta er fáránlegur hugsunarháttur,“ segir Kristján, sem blaðamaðurinn Nick Miller kallar erkióvin hvalaverndunarsinna.
Miller ræddi við Kristján í Reykjavík, og segir hann einan ábyrgan fyrir því að viðhalda hvalveiðum Íslendinga og hvaláti Japana. Í grein Millers segir að Íslendingar séu ein síðasta hvalveiðiþjóð heims, bæði af sögulegum ástæðum og vegna þrjósku gagnvart því að láta ekki utanaðkomandi aðila lesa yfir hausamótunum á sér.
Eitthvað virðist hins vegar vera að gefa sig og vísar Miller m.a. til hugmyndar Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að draga úr veiðum til að bæta orðspor landsins á alþjóðavettvangi.
Hann segir „Loftsson“ hins vegar vel tengdan og hann telji hvalastofnana sjálfbæra. En eru peningar í hvalveiðum?
„Þetta er allt í lagi. Þetta er ekki eins og að grafa niður á gullnámu eða álíka. En þetta er allt í lagi. Markaðurinn er til staðar í Japan og fólki líkar þessi matur. Mér virðist við geta haldið áfram að eilífu.“
Spurður um siðferðilega hlið veiðanna segir Kristján heila hvala hlutfallslega litla, og hann gefur lítið fyrir pólítikina.