Fastgengisstefna eina lausnin

Jón Baldvin Hannibalsson.
Jón Baldvin Hannibalsson. Rax / Ragnar Axelsson

Evrópusambandið og nánar tiltekið evrusamstarfið er í tilvistarkreppu, segir Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra. Hann segir engan gjaldmiðil í sjónmáli fyrir Íslendinga annan en krónuna, og engin ráð í stöðunni nema sveigjanlega fastgengisstefnu.

Jón Baldvin var viðmælandi Sigurjóns M. Egilssonar á Sprengisandi í dag.

Jón og Sigurjón ræddu m.a. Grikklandsmálið og veikleika Evrópusambandsins, en fyrrnefndi sagði sambandið ólíkt Bandaríkjunum að því leiti að evruríkin hefðu engan lánveitanda til þrautarvara. Seðlabanki Evrópu  hefði ekki heimilidir til að hlaupa undir bagga og það væri ekki samstarf um ríkisfjármálastefnu.

Hann sagði evrusamstarfið ekki myntbandalag heldur eitthvað allt annað, en hitt væri annað mál að Grikkland væri gerspillt ríki og yfirskuldsett, þar sem ríkir greiddu ekki skatta. Aðspurður játti Jón Baldvin því að til að samstarfið gengi upp þyrftu að verða til bandaríki Evrópu.

Hann sagði að þegar evrusamstarfinu var komið á laggirnar hefðu menn vitað af gallanum í kerfinu, þeir hefðu  hins vegar vonast til þess að mál myndu lagast með tímanum.

Spurður að því hvort þróun mála undanfarin misseri hefðu breytt afstöðu hans til Evrópusambandsins svaraði hann já; hann væri raunsæjismaður í pólítik og þrátt fyrir að hann væri Evrópusinni væri ljóst að aðild væri ekki í kortunum næstu fimm árin. Bandalagið væri svo upptekið af eigin vandmálum og veikleikum að það hefði ekki ráðrúm til að taka á móti nýjum aðildarríkjum og þá hefðu Íslendingar ekki áhuga á inngöngu.

Jón Baldvin sagði krónuna ónýta. Hún hefði verið í súrefniskassa á gjörgæslu, en honum litist vel á tillögur um lausn fjármagnshafta. Hann benti á að Malasía hefði farið þá leið að leggja búa til hvata fyrir þá sem ættu eignir innanlands, m.a. 60% útgönguskatt og umbun fyrir endurfjáfestingu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði fordæmt þessa leið en síðar beðist afsökunnar.

Hann spurði hins vegar að því hvað gerðist næst; aftur væri að koma upp sú staða að krónan væri að verða of sterk. Hann sagði andstætt almannahagsmunum að búa við miklar sveiflur og sagði engin önnur ráð í stöðunni en sveigjanlega fastgengisstefnu, þar sem ríkið, og seðlabankinn, bæru ábyrgð á genginu. Hann varpaði þeirri spurniingu fram hvort ríkið réði við þetta hlutverk og hvort binda bæri krónuna við evruna, líkt og í Danmörku.

Jón Baldvin sagði teikn á lofti um að Íslendingar hefðu ekki lært af hruninu og sigldu aftur á sömu mið. Spurður um dómgreind þeirra sem hefðu bundið drauma sína aðild að ESB sagði hann mörg rök, ekki bara efnahagsleg, hníga til aðildar. M.a. hvað varðaði öryggis- og utanríkismál, og almannahagsmunir.

Sigurjón spurði Jón Baldvin um uppgang nýrra flokka í Evrópu. Jón sagði þá m.a. að pólítísk viðbrögð í Evrópu í kjölfar hrunsins hefðu verið kolröng. Niðurskurðarstjórnmál Þjóðverja hefðu drepið Grikkland og væru við það að kæfa allt í suðurhluta álfunnar. Árangurinn væri enginn, aðeins samdráttur og svívirðilegt atvinnuleysi.

Jón Baldvin sagði að Ísland fyrir hrun hefði verið þjóðfélag að reyna að brjótast út úr helmingaskiptakerfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Markmiðið hefði verið að skapa heilbrigt markaðskerfi þar sem almannahagsmunir fengju að njóta sín undir réttlátum og gegnsæjum stjórnsýslureglum.

Hann hafnaði því að kratar hefðu fengið einn eða tvo bita af borðinu og sagði inngöngu í EFTA og EES hafa verið meðal þeirra stóru skrefa sem tekin voru á fyrrnefndri vegferð.

Jón Baldvin rak það að hafa boðið Davíð Oddssyni forsætisráðherrastólinn gegn stuðningi Sjálfstæðisflokksins við EES. „Hann sagði takk,“ sagði Jón. Hann sagði að það hefði haft djúpstæðar afleiðingar að Ólafur Ragnar Grímsson og Steingrímur Hermannsson snérust gegn EES, en Steingrímur hefði verið besti forsætisráðherrann sem hann hefði unnið með. Hann hefði sinnt því grundvallarhlutverki forsætisráðherra að liggja uppi í sófa og hugsa.

Hvað varðar stöðu Samfylkingarinnar játti Jón Baldvin því að það hefði greinilega mistekist að gera flokkinn að mótvægisafli við Sjálfstæðisflokkinn. Hann sagði m.a. að vinstristjórnin sem mynduð var eftir hrun hefði fengið það hlutverk að „moka flórinn“, en hún hefði klúðrað stórum málum og það væri á ábyrgð verkstjórans; Jóhönnu Sigurðardóttur.

Sem dæmi nefndi hann Icesave, skuldavanda heimilanna, auðlindamál og stjórnarskrána.

Jón Baldvin tók undir að of miklu hefði verið lofað. Hann sagði að fyrir lægi að standa vörð um almannahagsmuni gegn sérhagsmunum, tryggja eignina á þjóðarauðlindum, stokka upp í spilltu fjármálahagkerfum og reka pólítik sem byggði á grundvallarreglum norræna velferðarríksins.

Hann sagði auðlindamálið stærra en fólk gerði sér grein fyrir, það væri kveikjan að vaxandi ójöfnuði og væri tugmilljónamál sem væri óleyst á kostnað almennings.

Jón og Sigurjón komust ekki yfir allt það efni sem til stóð að fjalla um og verður Jón því aftur gestur Sprengisands næsta sunnudag, þar sem mun svara því hvort Alþýðuflokkurinn verði endurreistur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert