Það skín sól á Vestfjörðum en í dag er spáð bjartviðri á Faxaflóa norður á Vestfirði. Það verður hlýjast á Vesturlandi í dag en spáð er 6-15 stiga hita í dag.
Miðað við langtímaspána verður ekkert sérstakt veður um verslunarmannahelgina en ýmislegt getur breyst á næstu dögum.
Að sögn Trausta Jónssonar, veðurfræðings, er ekki von á breytingum á veðurlagi næstu vikuna og norðlægar áttir ríkjandi.
„Þetta er býsna líkt því sem verið hefur - nema hvað kuldapollur dagsins kemur vestan yfir Grænland - og lendir því yfir hlýjum sjó áður en hann fer að hafa áhrif hér. Ekki að það muni svo miklu því ekki er hann líklegur til að rífa upp hlýtt, suðrænt loft á sinni leið - frekar að hann komi í veg fyrir að það komist hingað.
En - sunnanátt fyrir austan land fær tækifæri til að koma hlýrra lofti en verið hefur til norðurs austan við landið - hugsanlega gæti það nýst okkur síðar - en er sýnd veiði en ekki gefin. Hlý norðanátt?,“ skrifar Trausti á bloggið.
Að sögn Trausta segja spár að kuldapollurinn haldi velli.
„Kuldi í háloftum að sumarlagi er ávísun á síðdegisskúrir - en kannski verður veðrið ekki sem verst,“ skrifar Trausti.
Spáin fyrir næsta sólarhring:
Norðaustlæg eða breytileg átt, yfirleitt 3-8 m/s. Bjartviðri á Faxaflóa norður á Vestfirði, annars skýjað og úrkomulítið, en síðdegisskúrir SV-til og á N-landi. Svipað veður á morgun. Hiti 6 til 15 stig að deginum, hlýjast V-lands.
Á þriðjudag:
Hæg breytileg átt eða hafgola og stöku skúrir, einkum S-til síðdegis. Skýjað með köflum N-lands og úrkomulítið. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast V-lands.
Á miðvikudag:
Breytileg átt eða hafgola, 3-8 m/s, skýjað og rigning eða skúrir S- og SV-til, en skýjað með köflum N-lands. Hiti 7 til 14 stig.
Á fimmtudag:
Norðlæg átt, víða 5-10 m/s. Smá væta syðst, en annars yfirleitt þurrt. Hiti breytist lítið.
Á föstudag:
Norðlæg átt 5-13 m/s. Rigning um landið N-vert, en lengst af þurrt syðra. Hiti 5 til 12 stig, mildast sunnantil.
Á laugardag:
Útlit fyrir norðaustan strekking á Vestfjörðum, en annars mun hægari. Rigning NV-til, annars úrkomulítið. Svalt á Vestfjörðum, en annars 8 til 15 stig.
Á sunnudag:
Útlit fyrir austan og norðaustanátt og rigninig eða súld SA- og A-lands, en þurrt í öðrum landshlutum. Hiti að 16 stigum, hlýjast V-lands.