Skógræktarfélag Reykjavíkur vinnur að uppgræðslu og endurbótum á votlendissvæði í Einarsmýri í Esjunni en verkið felst í að flytja núverandi göngustíg til austurs yfir á melasvæði þar sem álagsþol er meira.
„Um er að ræða vestari göngustíginn en hann liggur í gegnum Einarsmýri og er orðinn mjög leiðinlegur að sjá,“ segir Magnús Bjarklind, hjá EFLU verkfræðistofu og umsjónarmaður eftirlits verksins.
„Lögð verður rík áhersla á að fella stíginn vel að umhverfi sínu og landslagi en markmiðið með framkvæmdunum er að bæta gönguleiðina og auka þannig öryggi göngumanna en jafnframt græða upp rof og álagsskemmdir í Einarsmýri og endurheimta staðargróður.“