Þrír erlendir ferðamenn sem gistu í Vatnskoti á Þingvöllum um helgina unnu miklar skemmdir á viðkvæmum gróðri og mosa þegar þeir rifu upp mikið magn af mosa í þeim tilgangi að einangra tjöld sín betur.
Á Facebook-síðu þjóðgarðsins eru birtar myndir af tjöldum ferðamannanna. Má á þeim sjá hvernig þeir hafa raðað viðkvæmum gróðrinum þétt upp við tjöld sín. Fyrir vikið skildu þeir eftir mörg djúp og ljót sár í náttúru landsins.
Voru það landverðir þjóðgarðsins sem urðu varir við mosabeð allt í kringum tjöldin tvö. Gáfu þeir sig því á tal við ferðamennina. „Landverðir lásu yfir þeim og voru ferðalangarnir djúpt miður sín, en þeir höfðu talið að þetta væri í lagi. Síðar hurfu þeir á brott,“ segir á síðu Þingvalla.
Kemur þar einnig fram að landverðir hafi því næst eytt drjúgum tíma í að hylja sum sár og mun það hafa tekist að einhverju marki. Mosagróður er hins vegar afar viðkvæmur og tekur langan tíma að jafna sig.
Náttúruspjöllin hafa verið tilkynnt til lögreglu.