Ségolène Royal til Bessastaða

Bessastaðir.
Bessastaðir. mbl.is/Eggert

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson mun í dag eiga fund á Bessastöðum með Ségolène Royal, umhverfis-, sjálfbærni- og orkumálaráðherra Frakklands, sem heimsækir Ísland til að kynna sér fjölþætta nýtingu jarðhita og undirbúa umfjöllun um hreina orku á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í París í desember.

Frétt mbl.is: Royal í Hellisheiðarvirkjun

Forseti Íslands og Ségolène Royal hafa tvisvar á þessu ári fundað um slíkt samstarf, fyrst í Abu Dhabi í janúar í tengslum við Heimsþing hreinnar orku, og svo í París í apríl en þá átti forseti einnig fund með forseta Frakklands François Hollande sem þegið hefur boð um að flytja opnunarræðu á þingi Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið verður í Reykjavík í haust, segir í fréttatilkynningu frá embætti forseta Íslands. 

Ségolène Royal mun í heimsókn sinni til Íslands eiga fundi með Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra, Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðarráðherra og Sigrúnu Magnúsdóttur umhverfisráðherra, heimsækja orkuver, auðlindagarðinn á Reykjanesi og jarðhitafyrirtæki ásamt því að eiga viðræður við fjölda íslenskra sérfræðinga og vísindamanna.

Að loknum fundi forseta og Ségolène Royal býður forseti henni, sendinefnd ráðherrans og fulltrúum íslenskra stjórnvalda og aðila á vettvangi jarðhitanýtingar, til kvöldverðar á Bessastöðum.

Ségolène Royal hefur í áraraðir verið meðal helstu forystumanna í frönskum stjórnmálaum og var m.a. í framboði til embættis forseta í kosningunum 2007.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert