Tveir starfsmenn Landsvirkjunar urðu vitni að utanvegaakstri skammt frá Vatnsfellsvirkjun um klukkan níu í gærkvöldi. Var þá karlmaður búinn að keyra jeppabifreið út af veginum og lék sér að því að spóla henni í hringi í viðkvæmri náttúrunni.
Samkvæmt upplýsingum mbl.is voru starfsmenn Landsvirkjunar að koma suður Sprengisandsleið þegar þeir urðu vitni að athæfi mannsins. Var ökumaðurinn þá við leik utanvegar á meðan samferðakona hans gekk örna sinna skammt frá.
Landsvirkjunarmenn gerðu tilraun til þess að nálgast ökumanninn sem kaus heldur að flýja af vettvangi. Áður en það gerðist náðist hins vegar athæfið á mynd og verður það kært til lögreglu.
Eins og sést á myndinni skildi jeppabifreiðin og athæfi mannsins eftir sig áberandi sár í náttúrunni.