„Við sjáum ekki mikið af fólki með aukaverkanir eftir húðflúr á stofum. Hins vegar var ég að sjá nýlega grein frá Bandaríkjunum frá því í maí. Þar fengu 10% af 300 einstaklingum sem fengu húðflúr einhverskonar aukaverkanir eftir það. Aukaverkanirnar voru þá kláði, bólga eða skorpumyndun sem löguðust með tímanum,“ segir Steingrímur Davíðsson, húðlæknir, við mbl.is.
Eins og mbl.is greindi frá í gær fékk Gerða Kristjánsdóttir ofnæmi vegna rauðs litar í húðflúri sem hún fékk. Á endanum þurfti að fjarlægja húð af handlegg hennar þar sem flúrið var.
Frétt mbl.is: „Eins og skrilljón nálar inni í húðinni“
Steíngrímur segir að örfáir hafi hlotið alvarlegar aukaverkanir. „6% af þessum 300 fengu einkenni eftir húðflúrið sem vörðu lengur en fjóra mánuði, þá er það krónískt. Sumir voru jafnvel með einkenni í mörg ár. Þá eru þetta einkenni eins og kláði, þykkildi í húð, hreisturmyndun og bólga. Þetta er oft tengt ákveðnum litum.“
Steingrímur segir málið ekki svo einfalt að í öllum tilvikum sé alltaf um ofnæmissvaranir að ræða. „Þessi efni eru framandi fyrir húðina og það getur myndast mismunandi svörun fyrir þessum framandi efnum. Það getur þá gerst án þess að um ofnæmi sé að ræða og geta þykkildi myndast út frá því. Ég held einfaldlega að það sé ekki nógu mikið vitað um þessi mál. Þetta er ekki nógu mikið rannsakað.“
Hann bendir á að erfitt sé að ofnæmisprófa fólk til að finna hvers vegna húðin bregðist svona við tilteknum efnum. „Vandamálið er að það er mjög erfitt að ofnæmisprófa fólk til að finna orsakavaldinn. Það eru engar góðar aðferðir við að greina svona nákvæmlega. Síðan er erfitt að vita nákvæmlega hvaða litir eru í þessum húðflúrum. Þetta hefur breyst í gegnum árin. Hérna áður fyrr var notað kvikasilfur í rauða litinn. Þessir litir sem atvinnumennirnir nota eru talsvert öruggari en notuð voru áður fyrr. Kvikasilfur er náttúrulega eitur.“
Til að gera málin örlítið flóknari segir Steingrímur að þó húðin bregðist illa við sé ekki alltaf um ofnæmi að ræða. „Oft er erfitt að greina orsökina fyrir þessum viðbrögðum og þetta er ekkert alltaf ofnæmi. Stundum er þetta svörun húðarinnar án þess að um ofnæmi sé að ræða. Stundum er þetta ofnæmi.“
Að lokum vill Steingrímur benda sólarþyrstum Íslendingum á að hafa varann á gagnvart Henna húðflúrum handa börnum. „Krakkar fá oft þessi „tímabundnu húðflúr“ í sólarlandaferðum og þau geta innihaldið hárlit (PPDA). Þeir eru mjög ofnæmisvaldandi og það er ágætt að vara fólk við þessu. Krakkar fá oft miklar bólgur, kláða og blöðrur í húðina, sem koma kannski í ljós þegar heim er komið.“
Frétt mbl.is: „Eins og skrilljón nálar inni í húðinni“