Viðar Guðjónsson
Heitur lækur hefur myndast austast á tungu Holuhrauns, nærri fossinum Skínanda. Landverðir í Vatnajökulsþjóðgarði uppgötvuðu nýlega að hægt væri að baða sig í læknum. Stefanía Vignisdóttir, landvörður á svæðinu, segir að í fyrstu hafi þau haldið að lækurinn væri of kaldur til að baða sig í en það hafi ekki reynst rétt og er vatnið tæplega 40 gráður þar sem það er heitast. „Fyrst sáum við heita og volga potta. Að lokum komum við að eins konar á, eða straumhörðum læk sem er heitur,“ segir Stefanía. Hún segir óljóst hvort vatnið muni kólna eða hitna meira en orðið er. „Við höfum ekki fundið neinn stað þar sem vatnið er of heitt,“ segir Stefanía.
Hún segir að landverðir og ferðamenn hafi þegar baðað sig í vatninu. Sumir velji að baða sig í einskonar pottum sem eru aðgengilegri en lækurinn sjálfur. Stefanía hefur sjálf baðað sig og segir upplifunina notalega. Hún segir að lækurinn sé ekki sérstaklega aðgengilegur. „Það hvorki má né er sniðugt að fara yfir hraunið af öryggisástæðum. En áður en komið er að nýja hrauninu er hægt að vaða yfir kaldan læk sem nær upp fyrir hné. Svo fer maður yfir nokkrar sprænur sem eru volgar áður en maður kemur að heita vatninu. Maður gengur í rauninni eftir kantinum á nýja hrauninu,“ segir Stefanía.
Hún segir að nokkuð sé um ferðamenn á svæðinu, bæði erlenda og innlenda. „Sumir Íslendingar sem frétt hafa af þessu hafa komið hingað í þeim eina tilgangi að fara í lækinn, en ekki til að skoða t.d. Öskju,“ segir Stefanía. Hún bendir á að áhrif vatnsins á heilsufar fólks hafi ekki verið könnuð og því hafi engin leið verið stikuð að því. Fólk verði að fara þangað á eigin vegum og á eigin ábyrgð.