Matarmarkaður verður á Hlemmi

Innan tíðar gegnir Hlemmur öðru og nýju hlutverki þar sem …
Innan tíðar gegnir Hlemmur öðru og nýju hlutverki þar sem áhersla verður á rekstur veitingastaðar og matarmarkaðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reykjavíkurborg tekur brátt yfir húsnæði á Hlemmi og leitar að rekstraraðila til að koma þar á fót veitinga- og matarmarkaði sem verði opinn alla daga. Borgin birti auglýsingu hinn 12. júní sl. þessa efnis og var umsóknarfrestur gefinn til 6. júlí sl.

Hjálmar Sveinsson, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að borist hefðu nokkrar umsóknir sem nú væru til skoðunar hjá borgarráði. „Það eru komnar inn tillögur frá nokkrum aðilum og það er verið að skoða þær núna. Þar gera umsækjendur grein fyrir því hvers konar rekstur þeir sjá fyrir sér á Hlemmi og skila inn rekstraráætlun. Ég hugsa að það sé frekar stutt í það að rekstraraðili verði valinn og það verður þá tilkynnt,“ sagði Hjálmar.

Á heimasíðu Reykjavíkurborgar segir m.a.: „Viðskiptavinir eiga að geta notið veitinga á staðnum og þar verður einnig í boði fjölbreytt úrval matar svo sem kjöt, fiskur, grænmeti, ávextir auk tengdrar sérvöru á borð við blóm og kaffi.“

Þar kemur jafnframt fram að nýr rekstraraðili muni taka þátt í að skipuleggja breytingar á hlutverki hússins í samvinnu við Reykjavíkurborg. Hann velji verslanir og veitingastaði til samstarfs, afli tilskilinna leyfa, sjái um kynningar- og markaðsmál og annist allan daglegan rekstur hússins, þar með talið rekstur á salernum og öryggisvörslu. Reykjavíkurborg geri sérstaklega ráð fyrir því að salerni verði opnuð aftur í húsinu.

Strætó leigir áfram lítinn hluta Hlemms

Strætó B.S. muni áfram leigja lítinn hluta húsnæðisins undir starfsmannaaðstöðu fyrir vagnstjóra sína. Starfsemi Strætó mun færast í Vatnsmýrina þegar ný umferðarmiðstöð verður tekin þar í notkun.

Við val á rekstraraðila verði lagt til grundvallar nálgun við hugmyndina, hönnun og útlit, tenging við anda skipulags á svæðinu, þekking, reynsla og fjárhagsgeta viðkomandi ásamt viðskiptaáætlun. Þegar rekstraraðili hafi verið valinn verði samið nánar um leigu fyrir húsið á grundvelli markaðsleigu á nærliggjandi svæði og mögulegs kostnaðar við breytingar á húsnæðinu.

„Nálægð við gamla miðbæinn er svæðinu til framdráttar en hefur þó ekki tekist að vera nægilega sterkt aðdráttarafl í borginni. Undanfarin ár hefur mikil uppbygging verið á svæðinu og virðist ekkert vera því til fyrirstöðu að þar verði í framtíðinni sterkur og iðandi miðpunktur sem tengir saman fjögur svæði; Laugaveg/Hverfisgötu, Rauðarárstíg/Klambratún, Höfðatorg/Borgartún og Skipholt/Holtin, segir m.a. í úttekt Trípólí arkitekta á Hlemmi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert