„Þetta hefur alltaf verið svona hjá okkur um verslunarmannahelgi,“ segir Gísli Sigurbergsson, verðlagsstjóri Fjarðarkaupa í Hafnarfirði, og vísar í máli sínu til þess að verslunin verður lokuð alla helgina, þ.e. á laugardag, sunnudag og mánudag.
Ástæðan er einföld að sögn Gísla - verið sé að gera vel við starfsfólk.
Verslunin birti ljósmynd af Gísla fyrr í dag á samskiptavefnum Facebook og sést hann þar standa á bak við skilti sem auglýsir lokunina um helgina, en skiltið stendur á bílastæði verslunarinnar.
„Það er mjög í okkar anda að gera þetta, enda erum við meira og minna með lokað á öllum rauðum dögum, s.s. á 17. júní, sumardaginn fyrsta, 1. maí og uppstigningardag. Það er lokað alla rauða daga hjá okkur og hefur alltaf verið,“ segir Gísli í samtali við mbl.is. „Það er okkar stefna.“
Svo virðist sem viðskiptavinir og aðrir velunnarar verslunarinnar taki vel í stefnu Fjarðarkaupa því þegar blaðamaður ræddi við Gísla höfðu vel yfir 100 manns ritað athugasemd við myndbirtinguna á Facebook, yfir 2.000 sett við hana „læk“ og á annað hundrað deilt myndinni.
Við verðum í fríi alla verslunarmannahelgina! Að vanda verða Fjarðarkaup opin til 19 á föstudaginn en svo skellum við...
Posted by Fjarðarkaup on Wednesday, July 29, 2015