Farþegaþotur í langflugi milli Evrópu og Ameríku fljúga enn beint yfir Heklu, þrátt fyrir viðvaranir Páls Einarssonar, prófessors í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.
Hann skrifaði Samgöngustofu fyrir um ári og varaði við því að farþegaþotur legðu leið sína yfir eldfjallið. „Ég reyndi að vekja athygli á því að það væri óþarfa áhætta tekin með því að flugvélar flygju þarna beint yfir,“ segir Páll.
„Það fljúga þarna yfir 20-30 flug- vélar á dag. Þær eru í hættu að lenda í stróknum þegar hann kemur. Hekla þarf ekki að eyða neinni orku í að bræða sig upp í gegnum jökul þannig að mökkurinn mun rísa strax með fullri orku og fara upp í tíu kílómetra hæð, upp að veðrahvörfum.“ Páll segir að það myndi nægja að færa flugleiðina um fimm kílómetra frá Heklu til að minnka áhættuna mikið.
„Það sárgrætilega er að það virðast ekki vera nein viðbrögð hjá flugyfirvöldum til þess að gera þennan sjálfsagða hlut. Þá yrði þessi hætta úr myndinni. Það væri alveg hrapallegt ef við misstum allt í einu flugvél þarna.“
Fljúga í 30 þúsund fetum
„Það getur verið að þeir séu með einn flugpunkt yfir Heklu. Við vitum ekkert um það, en þeir fljúga bara inn á íslenskt yfirráðasvæði eftir ákveðnum hnitum. Það eru litlar líkur á því að Hekla gjósi og valdi slysi, af því að þetta tekur allt sinn tíma og Hekla er vel vöktuð. Þeir fljúga í 30.000 fetum þannig að líkurnar á að þetta valdi slysi eru engar, eða litlar,“ sagði Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir, sérfræðingur í fræðslumálum hjá Samgöngustofu, þegar Morgunblaðið bar undir hana ummæli Páls Einarssonar.
Að sögn Páls getur eldfjallið gosið hvenær sem er. „Hekla á næsta leik og aðdragandinn að honum verður mjög stuttur. Aðdragandinn að gosi verður varla meira en hálftími eða klukkutími,“ segir Páll.