Vill funda um aðgerðir Tyrkja

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hefur óskað eftir fundi í utanríkismálanefnd hið fyrsta til að ræða stuðning Atlantshafsbandalagsins við aðgerðir Tyrkja gegn Kúrdum.

Í samtali við mbl.is segist Katrín vilja að nefndin fari yfir þróun mála hjá tyrkneskum yfirvöldum. „NATO hefur lýst yfir stuðningi við aðgerðir Tyrkja í baráttunni gegn Íslamska ríkinu, sem virðast þó ekki síður beinast gegn Kúrdum. Sem aðildarríki að NATO þurfum við að ræða hvort það sé eðlilegt að lýsa yfir stuðningi við þær aðgerðir,“ segir Katrín.

„Það liggur auðvitað fyrir að í gangi hafa verið ákveðnar aðgerðir gagnvart Íslamska ríkinu sem kynntar hafa verið nefndinni. En þetta er ákveðin stefnubreyting sem mér finnst nauðsynlegt að nefndin fái skýringar á.“

Ræða þurfi um veru Íslands í NATO

„Ráðuneytið þarf lögum samkvæmt að hafa samráð við utanríkismálanefnd um meiriháttar ákvarðanir en auðvitað er hægt að ræða það hvaða ákvörðun felst í því þegar framkvæmdastjóri NATO segir bandalagið standa með Tyrklandi. Mér finnst eðlilegt að vita hvaða umræða átti sér stað í aðdraganda yfirlýsingarinnar og hvaða afstöðu fulltrúar Íslands tóku í því máli.“

Katrín segir að ræða þurfi um veru Íslands í hernaðarbandalaginu. „Það hljóta allir, hvort sem þeir vilja vera innan eða utan bandalagsins, að vilja ræða það á hvaða forsendum ákvarðanir eru teknar. Hér erum við að horfa á deilur Tyrkja og Kúrda settar í samhengi við Íslamska ríkið sem virðist vera óskylt málinu.“

NATO hefur lýst yfir stuðningi við aðgerðir Tyrkja.
NATO hefur lýst yfir stuðningi við aðgerðir Tyrkja. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka