Verður bitist um Bessastaði?

mbl.is/Eggert

Eitt ár er um helgina þangað til nýr forseti tekur við embætti á Íslandi. Eða ekki. Núverandi forseti hefur nefnilega ekki lýst því yfir enn hvort hann hyggist bjóða sig fram til að gegna embættinu áfram. Stjórnmálafræðingur telur minni líkur á því að Ólafur Ragnar Grímsson bjóði sig fram nú en síðast en ekki megi útiloka það. Dragi hann sig í hlé gætu margir stigið fram.

Fastlega má gera ráð fyrir því að Ólafur Ragnar Grímsson tilkynni í nýársávarpi sínu til þjóðarinnar hvort hann hyggst gefa kost á sér til áframhaldandi veru á Bessastöðum. Á nýársdag 2012 túlkuðu flestir orð hans á þann veg að hann hygðist láta staðar numið en það reyndist misskilningur. Ólafur Ragnar fór fram í fimmta sinn og vann öruggan sigur.

Ólafur Ragnar er þegar orðinn þaulsætnastur allra í embætti. Fimmta kjörtímabili hans lýkur á næsta ári. Ásgeir Ásgeirsson (1952 til 1968) og Vigdís Finnbogadóttir (1980 til 1996) sátu í fjögur kjörtímabil hvort, Kristján Eldjárn í þrjú (1968 til 1980) og Sveinn Björnsson lést áður en öðru kjörtímabili hans lauk (1944 til 1952).

Síðustu forsetakosningar, árið 2012, voru þær fyrstu þar sem sitjandi forseti fær alvöru mótframboð, en Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kastljóssins í Ríkissjónvarpinu, bauð sig þá fram gegn Ólafi Ragnari. Þóra fékk ríflega 33% greiddra atkvæða sem hlýtur að teljast ljómandi góð kosning. Niðurstaðan var þó vonbrigði fyrir Þóru og stuðningsmenn hennar en hún hafði mælst með enn meira fylgi í skoðanakönnunum í aðdraganda kosninganna.

Það var mál manna að Þóra hefði farið halloka í sjónvarpskappræðum gegn Ólafi Ragnari og velta má fyrir sér hvort einhver „alvöru“ frambjóðandi leggi í að skora hann á hólm á næsta ári gefi hann áfram kost á sér. Auðveldara getur reynst að verja embættið en sækja.

Ólafur Ragnar hefur verið umdeildur forseti en eigi að síður hafa vinsældir hans verið nokkuð stöðugar gegnum árin, ef undan eru skilin eftirmál efnahagshrunsins.

Grétar Þór Eyþórsson, stjórnmálafræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri, segir erfitt að átta sig á því hvort Ólafur Ragnar komi til með að bjóða sig fram aftur. „Það eina sem hægt er að reikna út með Ólaf Ragnar er það að hann er óútreiknanlegur,“ segir Grétar í léttum tón.

Aldurinn vegur þyngra

Ólafur Ragnar er orðinn 72 ára og Grétari þykir einsýnt að aldur hljóti að vega þyngra en áður þegar hann tekur ákvörðun sína að þessu sinni. „Aldurinn talar ekki beinlínis með honum, Ólafur Ragnar yrði 77 ára við lok næsta kjörtímabils. Á móti kemur að hann virkar heilsuhraustur. Við skulum ekki gleyma því að mikil ferð hefur verið á Ólafi Ragnari í embætti, oft á tíðum vængjasláttur. Hann er ekki maður sem vill sitja kyrr og gera ekki neitt. Þess vegna þarf hann að vera sannfærður um að honum endist þrek í fjögur ár til viðbótar.“

Fyrir kosningarnar 2012 vísaði Ólafur Ragnar til óvissu varðandi stjórnskipun landsins þegar hann rökstuddi þá ákvörðun sína að bjóða sig fram aftur. Grétar sér ekki að slík rök eigi við að þessu sinni, nema eitthvað óvænt komi upp á í vetur. „Það er mjög ólíklegt að farið verði í mikla stefnubreytingu í stjórnarskrármálum á næstunni. Alla vega ætti ekki að þurfa sérstaka vakt á Bessastöðum af þeim sökum.“

Að þessu sögðu telur Grétar minni líkur nú en síðast á því að Ólafur Ragnar bjóði sig fram. Það sé þó alls ekki hægt að útiloka það.

En hverjir eru líklegir til að gefa kost á sér í forsetakjörinu næsta vor?

Nokkuð hefur verið rætt um konu en yngsta kynslóð Íslendinga man ekki annað en karl á forsetastóli. Þóra Arnórsdóttir lýsti því yfir eftir ósigurinn síðast að hún hefði ekki hug á að bjóða sig fram aftur. Annað hefur ekki komið fram. Nafn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, hefur líka verið nefnt í þessu sambandi. Hún hefur hvorki tekið afstöðu af né á, alltént ekki opinberlega. Þá hefur nafn Rögnu Árnadóttur, fyrrverandi dómsmálaráðherra, borið á góma.

Af þessum þremur konum þykir Grétari Þóra líklegust til að velgja Ólafi Ragnari undir uggum. Hún hafi fengið góða kosningu síðast og gæti mögulega lagt forsetann nú. „Þóra fékk næstum því jafnmikið fylgi 2012 og Vigdís Finnbogadóttir 1980. Gleymum því ekki.“

Hann á vont með að sjá Katrínu bjóða sig fram gegn Ólafi Ragnari og Ragna sé orðin umdeildari en áður vegna starfa sinna hjá Landsvirkjun og aðkomu að flugvallarmálum. „Ragna er ekki eins hlutlaus og hún var enda fer minna fyrir henni í umræðunni nú en áður,“ segir Grétar.

Persóna en ekki kyn

Spurður hvort eðlilegt sé að karl og kona skiptist á að gegna embætti forseta Íslands segir Grétar ekki heilladrjúgt að stýra málum þannig. Framboð hljóti að snúast um persónur en ekki kyn.

Nafnið sem oftast hefur líklega verið nefnt í sambandi við forsetaframboð á næsta ári er Jón Gnarr, ritstjóri innlends efnis hjá 365 miðlum og fyrrverandi borgarstjóri. Hann hefur á hinn bóginn lýst því yfir að hann hafi ekki áhuga á embættinu, í það minnsta ekki að sinni. Fastlega má þó reikna með að stuðningsmenn Jóns láti á vilja hans reyna einhvern tíma á komandi vetri.

Ákveði Ólafur Ragnar að draga sig í hlé segir Grétar ljóst að mun fleiri komi til með að hugsa sér til hreyfings en ella og slagurinn um embættið gæti auðveldlega staðið milli fleiri en tveggja frambjóðenda. „Við skulum hafa í huga að sterkir kandídatar hafa oft komið seint fram, gott dæmi um það er Ólafur Ragnar Grímsson árið 1996. Það getur því margt gerst á skömmum tíma.“

Á því leikur enginn vafi að Ólafur Ragnar hefur breytt forsetaembættinu í sinni tíð. Hann hefur látið mun meira til sín taka en forverar hans, ekki síst á pólitíska sviðinu. Nægir þar að nefna beitingu neitunarvaldsins samkvæmt sextándu grein stjórnarskrárinnar. Gjörningur sem þótti óhugsandi áður.

Pólitískur undirtónn

Grétari þykir ekki ólíklegt að stemning gæti orðið fyrir manni sem ekki er eins umdeildur og Ólafur Ragnar á næsta ári, svo sem úr menningar- eða fræðasamfélaginu. „Á móti kemur að þjóðin vill greinilega hafa málskotsréttinn og gæti því viljað forseta sem hikar ekki við að beita honum. Fyrir vikið er ekki útilokað að kosningabaráttan næsta vor verði með pólitískari undirtón en oftast áður. Við fengum reyndar forsmekkinn af því 2012.“

Grétari þykir líklegt að Ólafur Ragnar tilkynni ekki ákvörðun sína fyrr en í nýársávarpinu og eftir það komi til með að hitna hratt í kolunum. Hvort sem hann verður með í slagnum eður ei. „En auðvitað verður þetta annar slagur ef Ólafur Ragnar verður ekki með. Og líklega meira spennandi.“

mbl.is/Eggert
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert