Verður bitist um Bessastaði?

mbl.is/Eggert

Eitt ár er um helg­ina þangað til nýr for­seti tek­ur við embætti á Íslandi. Eða ekki. Nú­ver­andi for­seti hef­ur nefni­lega ekki lýst því yfir enn hvort hann hygg­ist bjóða sig fram til að gegna embætt­inu áfram. Stjórn­mála­fræðing­ur tel­ur minni lík­ur á því að Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son bjóði sig fram nú en síðast en ekki megi úti­loka það. Dragi hann sig í hlé gætu marg­ir stigið fram.

Fast­lega má gera ráð fyr­ir því að Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son til­kynni í ný­ársávarpi sínu til þjóðar­inn­ar hvort hann hyggst gefa kost á sér til áfram­hald­andi veru á Bessa­stöðum. Á ný­árs­dag 2012 túlkuðu flest­ir orð hans á þann veg að hann hygðist láta staðar numið en það reynd­ist mis­skiln­ing­ur. Ólaf­ur Ragn­ar fór fram í fimmta sinn og vann ör­ugg­an sig­ur.

Ólaf­ur Ragn­ar er þegar orðinn þaul­sætn­ast­ur allra í embætti. Fimmta kjör­tíma­bili hans lýk­ur á næsta ári. Ásgeir Ásgeirs­son (1952 til 1968) og Vig­dís Finn­boga­dótt­ir (1980 til 1996) sátu í fjög­ur kjör­tíma­bil hvort, Kristján Eld­járn í þrjú (1968 til 1980) og Sveinn Björns­son lést áður en öðru kjör­tíma­bili hans lauk (1944 til 1952).

Síðustu for­seta­kosn­ing­ar, árið 2012, voru þær fyrstu þar sem sitj­andi for­seti fær al­vöru mót­fram­boð, en Þóra Arn­órs­dótt­ir, rit­stjóri Kast­ljóss­ins í Rík­is­sjón­varp­inu, bauð sig þá fram gegn Ólafi Ragn­ari. Þóra fékk ríf­lega 33% greiddra at­kvæða sem hlýt­ur að telj­ast ljóm­andi góð kosn­ing. Niðurstaðan var þó von­brigði fyr­ir Þóru og stuðnings­menn henn­ar en hún hafði mælst með enn meira fylgi í skoðana­könn­un­um í aðdrag­anda kosn­ing­anna.

Það var mál manna að Þóra hefði farið halloka í sjón­varp­s­kapp­ræðum gegn Ólafi Ragn­ari og velta má fyr­ir sér hvort ein­hver „al­vöru“ fram­bjóðandi leggi í að skora hann á hólm á næsta ári gefi hann áfram kost á sér. Auðveld­ara get­ur reynst að verja embættið en sækja.

Ólaf­ur Ragn­ar hef­ur verið um­deild­ur for­seti en eigi að síður hafa vin­sæld­ir hans verið nokkuð stöðugar gegn­um árin, ef und­an eru skil­in eft­ir­mál efna­hags­hruns­ins.

Grét­ar Þór Eyþórs­son, stjórn­mála­fræðing­ur og pró­fess­or við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri, seg­ir erfitt að átta sig á því hvort Ólaf­ur Ragn­ar komi til með að bjóða sig fram aft­ur. „Það eina sem hægt er að reikna út með Ólaf Ragn­ar er það að hann er óút­reikn­an­leg­ur,“ seg­ir Grét­ar í létt­um tón.

Ald­ur­inn veg­ur þyngra

Ólaf­ur Ragn­ar er orðinn 72 ára og Grét­ari þykir ein­sýnt að ald­ur hljóti að vega þyngra en áður þegar hann tek­ur ákvörðun sína að þessu sinni. „Ald­ur­inn tal­ar ekki bein­lín­is með hon­um, Ólaf­ur Ragn­ar yrði 77 ára við lok næsta kjör­tíma­bils. Á móti kem­ur að hann virk­ar heilsu­hraust­ur. Við skul­um ekki gleyma því að mik­il ferð hef­ur verið á Ólafi Ragn­ari í embætti, oft á tíðum vængjaslátt­ur. Hann er ekki maður sem vill sitja kyrr og gera ekki neitt. Þess vegna þarf hann að vera sann­færður um að hon­um end­ist þrek í fjög­ur ár til viðbót­ar.“

Fyr­ir kosn­ing­arn­ar 2012 vísaði Ólaf­ur Ragn­ar til óvissu varðandi stjórn­skip­un lands­ins þegar hann rök­studdi þá ákvörðun sína að bjóða sig fram aft­ur. Grét­ar sér ekki að slík rök eigi við að þessu sinni, nema eitt­hvað óvænt komi upp á í vet­ur. „Það er mjög ólík­legt að farið verði í mikla stefnu­breyt­ingu í stjórn­ar­skrár­mál­um á næst­unni. Alla vega ætti ekki að þurfa sér­staka vakt á Bessa­stöðum af þeim sök­um.“

Að þessu sögðu tel­ur Grét­ar minni lík­ur nú en síðast á því að Ólaf­ur Ragn­ar bjóði sig fram. Það sé þó alls ekki hægt að úti­loka það.

En hverj­ir eru lík­leg­ir til að gefa kost á sér í for­seta­kjör­inu næsta vor?

Nokkuð hef­ur verið rætt um konu en yngsta kyn­slóð Íslend­inga man ekki annað en karl á for­seta­stóli. Þóra Arn­órs­dótt­ir lýsti því yfir eft­ir ósig­ur­inn síðast að hún hefði ekki hug á að bjóða sig fram aft­ur. Annað hef­ur ekki komið fram. Nafn Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur, for­manns Vinstri­hreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs, hef­ur líka verið nefnt í þessu sam­bandi. Hún hef­ur hvorki tekið af­stöðu af né á, alltént ekki op­in­ber­lega. Þá hef­ur nafn Rögnu Árna­dótt­ur, fyrr­ver­andi dóms­málaráðherra, borið á góma.

Af þess­um þrem­ur kon­um þykir Grét­ari Þóra lík­leg­ust til að velgja Ólafi Ragn­ari und­ir ugg­um. Hún hafi fengið góða kosn­ingu síðast og gæti mögu­lega lagt for­set­ann nú. „Þóra fékk næst­um því jafn­mikið fylgi 2012 og Vig­dís Finn­boga­dótt­ir 1980. Gleym­um því ekki.“

Hann á vont með að sjá Katrínu bjóða sig fram gegn Ólafi Ragn­ari og Ragna sé orðin um­deild­ari en áður vegna starfa sinna hjá Lands­virkj­un og aðkomu að flug­vall­ar­mál­um. „Ragna er ekki eins hlut­laus og hún var enda fer minna fyr­ir henni í umræðunni nú en áður,“ seg­ir Grét­ar.

Per­sóna en ekki kyn

Spurður hvort eðli­legt sé að karl og kona skipt­ist á að gegna embætti for­seta Íslands seg­ir Grét­ar ekki heilla­drjúgt að stýra mál­um þannig. Fram­boð hljóti að snú­ast um per­són­ur en ekki kyn.

Nafnið sem oft­ast hef­ur lík­lega verið nefnt í sam­bandi við for­setafram­boð á næsta ári er Jón Gn­arr, rit­stjóri inn­lends efn­is hjá 365 miðlum og fyrr­ver­andi borg­ar­stjóri. Hann hef­ur á hinn bóg­inn lýst því yfir að hann hafi ekki áhuga á embætt­inu, í það minnsta ekki að sinni. Fast­lega má þó reikna með að stuðnings­menn Jóns láti á vilja hans reyna ein­hvern tíma á kom­andi vetri.

Ákveði Ólaf­ur Ragn­ar að draga sig í hlé seg­ir Grét­ar ljóst að mun fleiri komi til með að hugsa sér til hreyf­ings en ella og slag­ur­inn um embættið gæti auðveld­lega staðið milli fleiri en tveggja fram­bjóðenda. „Við skul­um hafa í huga að sterk­ir kandí­dat­ar hafa oft komið seint fram, gott dæmi um það er Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son árið 1996. Það get­ur því margt gerst á skömm­um tíma.“

Á því leik­ur eng­inn vafi að Ólaf­ur Ragn­ar hef­ur breytt for­seta­embætt­inu í sinni tíð. Hann hef­ur látið mun meira til sín taka en for­ver­ar hans, ekki síst á póli­tíska sviðinu. Næg­ir þar að nefna beit­ingu neit­un­ar­valds­ins sam­kvæmt sextándu grein stjórn­ar­skrár­inn­ar. Gjörn­ing­ur sem þótti óhugs­andi áður.

Póli­tísk­ur und­ir­tónn

Grét­ari þykir ekki ólík­legt að stemn­ing gæti orðið fyr­ir manni sem ekki er eins um­deild­ur og Ólaf­ur Ragn­ar á næsta ári, svo sem úr menn­ing­ar- eða fræðasam­fé­lag­inu. „Á móti kem­ur að þjóðin vill greini­lega hafa mál­skots­rétt­inn og gæti því viljað for­seta sem hik­ar ekki við að beita hon­um. Fyr­ir vikið er ekki úti­lokað að kosn­inga­bar­átt­an næsta vor verði með póli­tísk­ari und­ir­tón en oft­ast áður. Við feng­um reynd­ar forsmekk­inn af því 2012.“

Grét­ari þykir lík­legt að Ólaf­ur Ragn­ar til­kynni ekki ákvörðun sína fyrr en í ný­ársávarp­inu og eft­ir það komi til með að hitna hratt í kol­un­um. Hvort sem hann verður með í slagn­um eður ei. „En auðvitað verður þetta ann­ar slag­ur ef Ólaf­ur Ragn­ar verður ekki með. Og lík­lega meira spenn­andi.“

mbl.is/​Eggert
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert