Ekkert nýtt er að frétta af hótunum Rússa um refsiaðgerðir gagnvart Íslandi og fimm öðrum ríkjum sem lýstu stuðningi við refsiaðgerðir Evrópusambandsins og vesturlanda gagnvart Rússlandi. Í síðustu viku var hótunin höfð eftir talsmanni rússneskra stjórnvalda. Samkvæmt sendiráði Íslands í Moskvu er ekkert nýtt að frétta af málinu, en að öðru leyti er vísað á ráðuneytið varðandi spurningar af málinu.
Mörg íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa lýst áhyggjum vegna málsins, en Íslendingar selja gríðarlega mikið af sjávarafurðum til Rússlands. Þannig fór um helmingur makrílafurða árið 2013 til Rússlands og í heild er Rússland stærsti uppsjávarmarkaður Íslendinga. Í fyrra voru seld 120.000 tonn af uppsjávarafurðum þar, en um er að ræða makríl, síld og loðnu.
Þingmaðurinn Ásmundur Friðriksson sagði um helgina að hann teldi rétt að vegna málsins tæki Ísland sig af lista yfir þjóðir sem vilja viðskiptabann á Rússa. Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og flokksbróðir Ásmundar, telur aftur á móti ekki tilefni til að Ísland dragi stuðning sinn við viðskiptaþvinganir gagnvart Rússlandi til baka.