Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur haft í nokkru að snúast í nótt og í dag.
Rétt fyrir hálf tvö í dag barst lögreglunni í Kópavogi og Breiðholti tilkynning um mann sem hafði ráðist á konu með hrindingum og spörkum. Konan var úti að ganga með hundinn sinn en maðurinn var ósáttur við að konan gengi á öfugum helmingi göngustígins að mati mannsins. Konan hlaut engin meiðsl og lagði ekki fram kæru.
Um klukkustund síðar var tilkynnt um mann sem grunaður var um þjófnað úr verslun við Laugaveg. Hann náðist skömmu síðar og var vistaður í fangageymslu vegna ölvunar. Þýfi sem hann var með á sér var skilað í viðeigandi verslun og skýrsla verður tekin af honum þegar víman rennur af honum.