Biðröð er þegar tekin að myndast fyrir utan Dunkin' Donuts staðinn sem opnar á Laugaveginum í fyrramálið. Þegar ljósmyndari mbl.is leit við á tíunda tímanum í kvöld voru þegar um sjö manns mættir fyrir utan.
Fyrstu fimmtíu viðskiptavinirnir fá klippikort sem færir þeim kassa með sex kleinuhringjum í hverri viku í heilt ár.
Það má búast við því að fleiri bætist í hópinn eftir því sem líður á kvöldið og nóttina og verður að öllum líkindum margmenni við opnunina klukkan níu í fyrramálið.
Staðurinn er sá fyrsti í röðinni af alls sextán stöðum sem verða opnaðir á næstu fimm árum hér á landi.
Veitingastaðir Dunkin´ Donuts eru í dag 11.300 talsins í 36 löndum víða um heim.