Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar og hjólreiðamaður til 25 ára, kveðst taka undir ákveðin atriði í gagnrýni Gauta Grétarssonar, sjúkraþjálfara og hjólreiðamanns til 25 ára, í Morgunblaðinu fyrir helgi.
„Ég er sammála því að kappaksturshjólreiðar eiga ekki heima inni á tiltölulega þröngum stígum, þar sem bæði eru fótgangandi vegfarendur og hjólandi. Ég er líka sammála því að það þarf að bæta um betur, en það erum við einmitt að gera ár hvert,“ sagði Hjálmar í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir ótækt að keppnishjólamenn fari á miklum hraða á stígum þar sem gangandi vegfarendur séu einnig, og séu ekki með bjöllu. Taka verði tillit til gangandi vegfarenda. „Það þarf ugglaust að koma á meiri aga á þessum stígum, svo að ekki skapist hætta,“ sagði Hjálmar.
Hann kveðst telja að sú hjólabylting sem orðið hafi sé stórkostleg, ekki bara hér, heldur alls staðar.
„Segja má að þessi bylting hér hafi orðið svolítið einsleit, að því leyti að keppnishjólamennska er áberandi og gríðarlega öflug, sem er vissulega fagnaðarefni. En hún á bara alls ekki heima inni á hinum almennu göngu- og hjólastígum, og getur þess vegna skapað þær hættur sem Gauti fjallaði um í samtali við Morgunblaðið í síðustu viku,“ sagði Hjálmar. Hann kvaðst hafa fengið umkvartanir frá fólki sem segði við hann að það horfði í óefni hvað varðar hraðann á keppnishjólreiðamönnum á hinum almennu og oft þröngu stígum.
„Einn staður sem oft er nefndur við mig er Elliðaárdalurinn, vegna þess að hann er vinsæll útivistarstaður fyrir göngufólk. Þar stendur nú reyndar til í haust og næsta sumar að leggja sér stíga fyrir hjólreiðafólk, sem ég held að verði til mikilla bóta, ekki síst fyrir fótgangandi, vegna þess að þar er mikið af kröppum beygjum og blindhornum,“ sagði Hjálmar.
Hjálmar bendir á að Reykjavíkurborg hafi gert mikið til þess að bæta aðstæður göngu- og hjólreiðafólks. Umtalsvert fjármagn hafi verið sett í að bæta göngu- og hjólastíga og leggja nýja. Á þessu ári sé 350 milljónum króna varið í verkefnið.
„Við leggjum æ aukna áherslu á að leggja sér hjólastíga og gott dæmi um það er stígarnir meðfram Ægisíðu og allur Fossvogsdalur og stígarnir meðfram Sæbrautinni,“ sagði Hjálmar.
Hann telur ekki þörf á því að stígar séu tvískiptir alls staðar. „Fótgangandi og hjólandi fólk á alveg að geta deilt sama stíg, sem aðskilinn er með áberandi línu, ef farið er varlega,“ sagði Hjálmar.
Ásbjörn Ólafsson, formaður Landssamtaka hjólreiðamanna (LHM), segir að gagnrýni Gauta Grétarssonar á hjólreiðamenn á keppnishjólum sem þeysist um göngu- og hjólastíga borgarinnar á miklum hraða, án þess að vera með bjöllu, hafi vissulega verið rædd innan LHM. „Við höfum rætt um nauðsyn þess að vera með bjöllu á hjólunum og að hjólreiðamenn haldi sig hægra megin á stígunum, auk þess sem við brýnum fyrir hjólreiðamönnum að fara eftir lögum og reglum. Það vill brenna við að keppnishjólreiðamenn séu að hjóla of margir saman í hópi á stígunum og ganga þar með á rétt gangandi vegfarenda og í versta falli stofna þeim í hættu,“ sagði Ásbjörn í samtali við Morgunblaðið.