Neyðarmóttöku nauðgana hafa borist þrjár tilkynningar um kynferðisbrot um verslunarmannahelgina. Brotin voru öll framin á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Eyrún Björg Jónsdóttir, verkefnisstjóri Neyðarmóttöku nauðgana á Landspítalanum, sagði þetta í samtali við fréttastofu RÚV. Hún sagði konurnar allar ungar.
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, sagði í samtali við mbl.is að enginn hefði leitað til Stígamóta vegna kynferðisbrota. Oft kæmu þolendur kynferðisofbeldis hins vegar til Stígamóta löngu eftir að brotin væru framin.
Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, sagði lögregluna myndu senda upplýsingar um brot helgarinnar til fjölmiðla fljótlega, að öllum líkindum í dag.