Kaldur júlí hefur neikvæð áhrif á vatnsbúskap

Horft yfir Hálslón..
Horft yfir Hálslón.. mbl.is/Rax

Kaldur júnímánuður, sér í lagi á Austurlandi, hefur gerbreytt horfum fyrir fyllingu miðlunarlóna Landsvirkjunar eins og þær voru settar fram í upphafi júlí.  Skortur á jökulbráð hefur valdið því að Hálslón hefur aðeins hækkað um tæpa tíu metra í júlí og stendur nú í 593 m y.s. eða 37% fylling. Það vantar því yfir þrjátíu metra að það fyllist í haust og nú eru innan við helmingslíkur að það gerist.

Svipaða sögu er að segja með Blöndulón, fylling þar hefur nánast stöðvast seinni hluta júlí og er nú um 55%.  

Besta staðan er á Þjórsársvæðinu.  Þórisvatn og Hágöngulón eru aðeins yfir væntingum frá í byrjun júlí og fyllingin er nú um 78%.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun.

Í ljósi þessarar breyttu stöðu hefur Landsvirkjun hagað vinnslu kerfisins með það að markmiði að auka sem mest líkur á að staða Hálslóns verði viðunandi í haust.

Hagstætt veðurfar í ágúst og september getur breytt talsverðu um vatnsstöðu Landsvirkjunar. Ef innrennsli heldur áfram að vera nálægt lægstu mörkum fram eftir hausti gæti þurft að minnka afhendingu á raforku í upphafi vetrar.

Frétt Landsvirkjunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka