Garðar St. Ólafsson, lögmaður stúlku sem á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum hefur verið sökuð um að hafa ráðist á Stellu Briem Friðriksdóttur, formann Femínistafélags Verslunarskóla Íslands, á Þjóðhátíð fyrir það eitt að vera femínisti hafnar frásögn Stellu og segir að stelpurnar þrjár, sem sakaðar hafa verið um árásina og eru á aldrinum 16 til 18, hafi ekki þekkt Stellu og enn síður ráðist á hana vegna skoðana hennar.
Frétt mbl.is: Spörkuðu og kýldu vegna femínisma
„Stella tók því sem mikilli móðgun hversu áhugalitlar þær voru um hana og að þær skyldu ekki vita að hún væri formaður Femínistafélags Verzló,“ segir Garðar. Hann bætir við að þegar hann las fyrstu fréttir um málið áður en hann hafi tekið það að sér hafi honum þótt það afar ótrúverðugt að þrjár unglingsstelpur færu á milli manna á Þjóðhátíð og beittu fólk ofbeldi fyrir það að vera femínistar.
Hann bendir á að stúlkurnar þrjár séu ekki í Verslunarskóla Íslands og engin ástæða fyrir því að þær ættu að vita hver Stella Briem væri. „Ég veit ekki til þess að hún hafi verið þjóðþekkt fyrir þetta,” segir Garðar en Stella brást m.a. við meintu virðingarleysi sem í því fólst að þekkja hana ekki með því að henda bjór í stúlkurnar þrjár.
„Mér varð strax hugsað til Lúkasarmálsins á Akureyri þegar ég sá fjölmiðlafárið í þessu máli. Sannast hið fornkveðna, eigi skal syrgja hundinn Lúkas nema dauður sé,“ segir Garðar sem þykir það varhugavert þegar netheimar leita að sökudólgum áður en nokkuð liggur fyrir af staðreyndum máls.
Garðar segist ekki vita hvort Stella ætli að kæra árásina. Hann segir alla hafa sína sögu að segja eftir áflog og frásögnin væntanlega ekki mjög nákvæm þar sem fólk var mjög drukkið klukkan fimm aðfaranótt síðasta dags hátíðarinnar.
„Það er ekki við því að búast að sagan sé nákvæm,” segir Garðar en hann vinnur nú að því að fjarlægja nafnbirtingu skjólstæðings síns af samfélagsmiðlinum Twitter. Hann segir ekki útilokað að þeir aðilar sem þar rægja nafngreinda aðila þurfi að síðar að standa skil orða sinna fyrir dómstólum, en ærumeiðandi ummæli á Twitter eru refsiverð eins og annarsstaðar.