Frá Bandaríkjunum til Parísar á hjóli

Tveir 23 ára Bandaríkjamenn, sem hyggjast hjóla tíu þúsund kílómetra frá Bandaríkjunum til Frakklands, eru nú staddir hér á landi. Í dag munu þau funda með vísindamönnum og ráðamönnum hér á landi, þar á meðal borgarstjóra Reykjavíkur, áður en þau leggja af stað til Seyðisfjarðar á morgun.

Þau heita Morgan Curtis og Garrett Blad og eru á leið til Parísar þar sem þau munu taka þátt í loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í desember.

Eftir að för þeirra hófst í Vermont hjóluðu þau saman í gegnum ríkin New Hampshire og Maine, áður en þau fóru norður yfir landamærin til að hjóla í gegnum New Brunswick og Nova Scotia. Þaðan flugu þau hingað en frá Seyðisfirði munu þau taka Norrænu yfir til Noregs. Þau segjast ekki ætla að taka auðveldu leiðina í gegnum Norðurlöndin.

Búið að vara þau við veðrinu

„Eftir að við komum til Noregs ætlum við að hjóla norður að heimskautsbaugnum og þaðan förum við suður í gegnum Finnland og Svíþjóð. Það er loftslagsráðstefna fyrir ungt fólk í Svíþjóð í október sem við vonumst til að geta verið viðstödd,“ segir Blad í samtali við mbl.is.

En fyrst þurfa þau að hjóla um suðurströnd Íslands, austur á Seyðisfjörð. „Við höfum verið vöruð við öllu veðrinu sem við getum lent í á leiðinni og við ættum að vera vel undirbúin fyrir ferðina,“ segir Curtis. Blad og Curtis hafa þegar heimsótt Hellisheiðarvirkjun og segja þau að endurnýjanleg orka hér á landi hafi hvatt þau til að koma hér við á leið þeirra yfir Atlantshafið. 

Aðspurð af hverju þau hafi lagt af stað í þetta ferðalag segir Curtis að svarið sé auðvelt.

„Ég hugsaði með sjálfri mér: Hvað hef ég í mínu valdi til að vekja athygli á þessum málaflokki og þessari mikilvægu ráðstefnu sem fram fer í París í ár? Og miðað við þau úrræði sem ég hafði á höndum mínum ákvað ég að hjóla þangað og segja sögur af því fólki sem ég hitti á leið minni. Ég fékk Garrett til að koma með mér og við höfum fengið leyfi til að vera æskufulltrúar á ráðstefnunni.“

Hún segir augu heimsins beinast að París. „Allir eru að tala um hvernig við getum fengið besta mögulega sáttmálann út úr þessari ráðstefnu, sem væri bindandi fyrir öll lönd heimsins og myndi takmarka útblástur.“

Afneitun er stórt vandamál

„Það sem við höfum lært á ferðalagi okkar er að fólk um allan heim er að taka málin í sínar hendur og að ráðast í aðgerðir til að stuðla að sjálfbærri þróun. Það veitir okkur innblástur til að beita okkur virkilega þegar kemur loks að ráðstefnunni,“ segir Curtis.

Blad segir afneitun loftslagsbreytinga vera stórt vandamál í Bandaríkjunum. 

„Það er sérstaklega sýnilegt á meðal þeirra repúblikana sem eru nú að sækjast eftir tilnefningu fyrir forsetakosningarnar. Fólk heldur svo fast í þá trú að þessar breytingar séu ekki af mannavöldum og að við ættum ekki að einbeita okkur að þessu. Þetta á sér djúpar rætur og ég held að stórfyrirtæki og peningaöflin komi þar mikið við sögu.

Við getum ekki barist almennilega gegn loftslagsbreytingum í Bandaríkjunum fyrr en við lögum það sem er að stjórnmálakerfinu okkar.“

Að lokum segir Curtis að dvöl þeirra á Íslandi hafi hingað til verið frábær. 

„Við heyrum svo mikið um kraft lýðræðisins hérna, framförina í réttindabaráttu kvenna og alla endurnýjanlegu orkuna. Þessi boðskapur á erindi við allan heiminn og ég vil hvetja Íslendinga til að þrýsta á önnur lönd, svo að við getum hafið þessa byltingu sem við þurfum öll á að halda.“

Meiri upplýsingar um leiðangurinn Curtis og Blad má finna á vefsíðu þeirra, Climatejourney.org og á Facebook.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka