Líkamsárás við Engihjalla

Lögreglan þurfti oftar en einu sinni að sinna fólki á …
Lögreglan þurfti oftar en einu sinni að sinna fólki á Austurvelli í gærkvöldi og nótt. Júlíus Sigurjónsson

Líkamsárás við Engihjalla, ökumenn í fíkniefnavímu, ofurölvi fólk og þjófar. Þetta er meðal þess sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu glímdi við í gærkvöldi og nótt.

Lögreglunni barst tilkynning um líkamsárás við Engihjalla í Kópavogi á öðrum tímanum í nótt. Þar hafði verið ráðist á mann og honum veittir áverkar m.a. á höfði. Árásarmennirnir fóru af vettvangi á bifreið.

Um kvöldmatarleytið var maður handtekinn í smáíbúðahverfi. Hann var í svo mikilli vímu að hann hafði dottið utan í bifreið og skemmt hana. Maðurinn er vistaður í fangageymslu meðan ástand hans lagast.

Um eitt í nótt var bifreið ekið á ljósastaur við Álftanesveg og síðan út af veginum. Ökumaðurinn fór af vettvangi áður en lögregla kom á vettvang. Rúmri klukkustund síðar var tilkynnt um stuld á bifreið í Garðabæ.

För ökumanns, sem er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna auk þess að vera próflaus enda sviptur ítrekað, var stöðvuð á Vesturlandsvegi við Víkurveg um miðnætti.

Lögreglan stöðvaði bifreið á Hringbraut í Vesturbænum um níu í gærkvöldi þar sem ökumaðurinn notaði ekki bílbelti. Í ljós kom að hann var undir áhrifum fíkniefna og með fíkniefni á sér. Síðan hafði lögregla afskipti af manni við Austurvöll í gærkvöldi vegna vörslu fíkniefna. Um tíuleytið ákvað lögreglan að vista konu í fangaklefa þar til ástand hennar myndi lagast en hún var handtekin ofurölvi á Austurvelli. Hún var svo ölvuð að hún var ófær um að tjá sig. Á fjórða tímanum í nótt höfðu lögreglumenn afskipti af ofurölvuðum manni á Austurvelli og fékk hann gistingu í fangaklefa. 

Tilkynnt var um þjófnað úr bifreið við Hafnarstræti í nótt en farið var í bifreiðina og stolið úr henni seðlaveski með greiðslukortum o.fl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert