Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, segir það vanhugsað að taka þátt í viðskiptabanni gegn Rússum. Þetta kemur fram í pistli sem hann hefur ritað á vef fyrirtækisins.
„Engin efnisleg umræða hefur farið fram um þátttöku íslenskra stjórnvalda í að framlengja viðskiptabann gegn Rússum 30. júlí sl. vegna málefna Úkraínu. Samt eru gríðarlegir hagsmunir þjóðarbúsins lagðir að veði með þessari ákvörðun. Íslenskir útflytjendur fengu fyrst að vita af ákvörðuninni frá viðskiptavinum sínum í Rússlandi.
Undirritaður átti fundi bæði með ráðherra og formanni utanríkismálanefndar eftir að í ljós kom að Ísland studdi upphaflegar þvingunaraðgerðir gegn Rússum þar sem þeim var fyllilega gerð grein fyrir þeim afleiðingum sem þetta gæti haft ef viðskiptabann gegn Íslandi kæmi til framkvæmda. Samt sér Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, enga ástæðu til að staldra við þótt gríðarlegir hagsmunir séu í húfi fyrir íslenskt efnahagslíf.
Hlutverk stjórnvalda er að skapa umgjörð um starfsskilyrði fyrirtækja og styðja við þann farveg sem alþjóðleg viðskipti fara um. Sé raunverulegur vilji til að aðstoða íslensk fyrirtæki og gæta að hagsmunum þjóðarinnar getur ráðherra lýst yfir hlutleysi stjórnvalda og reynt að vinda ofan af stuðningi Íslands í aðgerðum gegn Rússum. Á þann hátt er sjálfstæði Íslendinga í utanríkismálum undirstrikað.
Viðskiptaþvinganir hafa takmörkuð áhrif og bitna helst á þeim sem síst skyldi, það er almennum borgurum viðkomandi ríkja. Hlutverk utanríkisráðuneytisins er að framfylgja utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar eftir diplómatískum leiðum en ekki að beita þjóðir viðskiptaþvingunum án umræðu. Það á að rækta viðskiptin við Rússa á þessum erfiðu tímum og er full ástæða að viðhalda áratuga góðum viðskiptasamböndum við Rússa,“ skrifar Gunnþór.
Undrast að þetta komi ráðherra á óvart
Hann segir afleiðingar af þessari þátttöku Íslendinga séu að öllum líkindum að steypast yfir okkur á næstu dögum í formi innflutningsbanns á einn af okkar mikilvægustu mörkuðum fyrir frystan uppsjávarfisk; loðnu-, síldar- og makrílafurðir.
„Auk þess hefur markaður fyrir bolfiskafurðir okkar verið vaxandi í Rússlandi. Viðskiptaaðilar okkar þar í landi hafa verið duglegir að upplýsa okkur um fréttaflutning af þessu máli sl. viku og hefur verið alveg skýrt í þeirra huga hvert málið stefnir. Samt virðast þessar fréttir koma utanríkisráðherra á óvart í Morgunblaðinu og hann segir óljóst hvað Medvedev forsætisráðherra sé að segja. Hér eru miklir hagsmunir í húfi og ráðherra lætur málið koma sér í opna skjöldu!
Við Íslendingar höfum síðustu áratugina átt í farsælum og góðum viðskiptum við Rússland og stóðu þau viðskipti af sér kalda stríðið. Eins og sést í samantekt hér að neðan, sem byggð er á gögnum frá Hagstofu Íslands, hafa viðskipti við Rússland með sjávarafurðir vaxið ár frá ári.
Viðskipti með síldarafurðir eiga sér margra áratuga sögu; markaður fyrir frosna loðnu hefur vaxið síðustu áratugina og markaður fyrir loðnuhrogn er stækkandi. Með tilkomu makrílsins nýttust viðskiptasamböndin strax til að byggja upp góða markaði fyrir makrílafurðir okkar. Hagsmunir þjóðarinnar eru hér miklir.
Sérþekking á erlendum mörkuðum hefur byggst upp á löngum tíma innan sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi og hefur bundið saman öflugt sölunet sem trosnar ekki auðveldlega. Þessi sambönd hafa haldið enda allt kapp lagt á að halda góðum tengslum við Rússa. Það eru pólitísku samböndin sem eru að rakna upp í höndunum á utanríkisráðherra. Þar ber hann einn ábyrgð.
Utanríkisráðherra nefnir að ráðuneytið sé alltaf reiðubúið að aðstoða útflytjendur. „Frá því að þvinganirnar tóku gildi gagnvart Rússum hefur enginn útflytjandi óskað aðstoðar ráðuneytisins, sendiráða eða Íslandstofu við að finna nýja markaði,“ segir Gunnar Bragi í Morgunblaðinu.
Íslensk útflutningsfyrirtæki eru með fulltrúa á sínum snærum út um allan heim að selja sjávarafurðir frá Íslandi, þau taka þátt í öllum helstu sölusýningum í heiminum til að kynna íslenskan fisk og kynnast fjarlægum mörkuðum og treysta ný sambönd. Við tökum þátt í alþjóðlegu samstarfi og ráðstefnum þar sem farið er yfir alla markaði t.d. fyrir uppsjávarfisk. Ástæða þess að opinberir starfsmenn eru ekki beðnir um aðstoð við að selja fisk er einfaldlega sú að útflutningsfyrirtækin eru að vinna að því öllum stundum og tryggja þar með bestu hagsmuni Íslands á hverjum tíma. Það er í verkahring utanríkisráðherra að tryggja pólitíska hagsmuni Íslendinga erlendis,“ segir Gunnþór.
Utanríkisráðherra á ekki að selja sjávarafurðir
Nú sitja stjórnendur fyrirtækja milli vonar og ótta um það hvort stjórnvöld í Rússlandi láti okkur á listann yfir þjóðir sem beittar verða viðskiptaþvingunum, skrifar Gunnþór.
„Mikilvægar vertíðir eru framundan. Kraftar utanríkisráðherra og hans fólks eiga ekki að fara í það að selja sjávarafurðir. Athygli þeirra á að beinast að því að halda góðu sambandi við viðskiptaþjóðir okkar svo við getum flutt út sjávarafurðir og aflað þjóðarbúinu tekna.
Síldarvinnslan í Neskaupstað hefur flutt út síldarafurðir til Rússlands í meira en hálfa öld og hefur sá markaður ávallt skipt fyrirtækið og starfsfólk þess miklu máli,“ segir ennfremur á vef Síldarvinnslunnar.