Ísland móti sína eigin stefnu

Kolbeinn Árnason.
Kolbeinn Árnason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, vill að Íslendingar móti sína eigin stefnu um hvernig taka skal á mannréttindabrotum en elti ekki Evrópusambandið í þeim efnum.

Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.

Fram kom í Morgunblaðinu í dag að utanríkismálanefnd hafi í gær fundað um mögulegt viðskiptabann Rússlands gegn Íslandi. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir einhug í nefndinni að víkja ekki frá þeirri afstöðu sem verið hefur um að styðja viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi.

Kolbeinn segir í frétt RÚV að í gagnrýni hans sé ekki krafa um að breyta eigi utanríkisstefnu Íslands. Hins vegar sé undarlegt að Íslendingar taki viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins beint upp. „Þær hindranir sem við horfum upp á hérna koma mjög illa við íslenskt efnahagslíf. Mér er það til efs að það sé svo í nokkru landi að grein eins og sjávarútvegurinn og stór hluti nokkurrar greinar sem er svona mikilvæg verði svona illa fyrir barðinu á þessum tilteknu viðskiptaþvingunum,“ segir Kolbeinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert