„Eins og að líkja saman timbri og parketi“

Hugi segist fagna því að verðhjöðnun sé nú á innkaupsverði …
Hugi segist fagna því að verðhjöðnun sé nú á innkaupsverði eldsneytis.

Líkt og mbl.is hefur fjallað um þá hefur verð á hrá­ol­íu lækkað um rúm­lega helm­ing á und­an­förnu ári, en á sama tíma hef­ur eldsneytis­verð á Íslandi aðeins lækkað um tæp tíu pró­sent. Hugi Hreiðarsson markaðsstjóri Atlantsolíu segir þennan samanburð rangan, enda vanti inn í jöfnuna að ríkið taki helmingshlut söluverðsins.

„Mér finnst sérstakt þegar fjölmiðlar bera saman annars vegar lækkanir heimsmarkaðsverðs upp á 57 prósent og hins vegar lækkanir eldsneytisverðs upp á 12,1%. Þegar slíkur samanburður á sér stað, þá veðrast upp fréttamiðlar og netheimar og halda mætti að olíufélögin séu að pretta og svíkja sína viðskiptavini.

Í þessu samhengi vantar að hlutur ríkisins er helmingur af útsöluverði. Þess vegna er slíkur samanburður ekki til að gefa rétta mynd af stöðu mála og sem fyrr viðheldur hann neikvæðri umfjöllun um þá sem selja eldsneyti.“

Sjá frétt mbl.is: Neyt­end­ur njóta varla verðlækk­un­ar

Fagnar verðhjöðnun á innkaupsverði

„Þetta er eins og að líkja saman verðbreytingu á óunnu timbri og parketi, að bera saman heimsmarkaðsverð á hráolíu og verði á fullunnum afurðum líkt og bensíni og dísel. Vissulega hefur verð óunnins timburs áhrif á parketverð en það gerist ekki samdægurs og fleiri þættir koma þar að. Það er því ekkert sjálfgefið að heimsmarkaðsverð sem breytist að morgni dags komi fram hér síðdegis, hvort sem það er til hækkunar eða lækkunar,“ segir Hugi.

Hann segist jafnframt fagna því að verðhjöðnun sé nú á innkaupsverði eldsneytis. „Til dæmis er bensín nú 25 krónum lægra en á sama degi fyrir ári og 37 krónum lægra á díselolíu. Enda er það okkar hagur að verð á eldsneyti sé sem lægst enda hafa ferðalög aukist með lækkun eldsneytisverðs“.

Hugi segir að tilkoma Atlantsolíu hafi hleypt nýju lífi í eldsneytismarkaðinn. 

„Verðbreytingar áður en Atlantsolía kom til starfa voru í kringum 9 til 12 á ári. Nú eru þær 80 til 90 talsins. Þá var hækkun nær aldrei afturkölluð fyrr en við komum til sögunnar, en slíkt hefur margoft átt sér stað á undanförnum mánuðum án þess að það rati í fjölmiðla.“ segir hann og blæs sömuleiðis á tilhugsanir um verðsamráð.

Lifandi samkeppni hér á landi

„Til að mynda skoðuðum við verðlækkanir hérlendis um síðustu áramót gagnvart 40 Evrópuþjóðum. Í ljós kom að Ísland var í 4. sæti af þeim löndum sem höfðu lækkað mest og í 5. sæti þegar dregin var frá breyting á virðisaukaskatti sem átti sér stað um áramótin. Fram til þess tíma hafði verið mikil gagnrýni á verðlækkanir en reyndin var bara allt önnur.“

Jafnan er gagnrýnt hversu svipuð eldsneytisverð olíufélögin bjóða upp á og að raunveruleg samkeppni sé engin á þessum markaði. Hugi segir það af og frá.

„Við sölu á eldsneyti þá er það þannig að ef þú fylgir ekki eftir og gerir líkt og samkeppnisaðilinn þá verður þú einfaldlega af viðskiptum. Þess vegna eru verð mjög áþekk bæði á Íslandi og annars staðar í Evrópu. Það er mjög lifandi samkeppni hér á landi, alveg sama hverju FÍB heldur fram.“

Eiga eldsneytisbirgðirnar sjálf

Þegar heimsmarkaðsverð hráolíu lækkar á sama tíma og eldsneytisverð hér á Íslandi gerir það ekki, hafa forsvarsmenn olíufélaganna stundum svarað gagnrýni á þann veg að þau eigi birgðir sem þau keyptu áður en viðkom­andi lækk­un átti sér stað og því skili hún sér ekki und­ir eins út í verðlagið.

Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB tók fyrir þess háttar útskýringar í umfjöllun mbl.is.

„Við höf­um staðfest­ar heim­ild­ir fyr­ir því að olíu­birgðir hér á landi séu í eigu er­lendra birgja. Einu birgðirn­ar sem fé­lög­in sitja því uppi með frá degi til dags, eru á bens­ín­stöðvun­um,“ sagði Runólfur.

Þeirri gagnrýni svarar Hugi svo: „Eins og staðan er í dag eigum við okkar birgðir sjálf og að jafnaði erum við að selja út á meðalverði þess mánaðar sem var að líða.

Betri magnkjör en bjóðast íslenskum félögum

Í máli sínu benti Runólfur sömuleiðis á álagningu olíufélaga í nágrannalöndum og vísaði í því sambandi einkum til Danmerkur og Svíþjóðar. Sagði hann óeðlilegt að álagning í Danmörku væri aðeins helmingur af því sem tíðkast hér á landi.

„Mögulega er FÍB vísvitandi að reyna að kasta rýrð á okkur hjá Atlantsolíu með þess konar fullyrðingu,“ segir Hugi.

„Sjálfur hef ég heimsótt næst stærsta olíufélag Svíþjóðar, sem rekur 600 bensínstöðvar og þjónustar níu milljóna manna markað. Ég veit fyrir víst að þau magnkjör sem þeir fá séu talsvert betri en þau sem okkur bjóðast, auk þess sem þeir reka jafnframt sína eigin olíuhreinsistöð. Í besta falli er slíkur samanburður ósanngjarn.“

Álagningin ekki föst krónutala

Miðað við grafið hér að ofan virðist sem olíu­fé­lög­in hafi í gegnum tíðina séð sér leik á borði til að hækka álagn­ingu þegar heims­markaðsverðið lækk­ar. 

Aðspurður um hvort álagning hafi hækkað hjá olíufélögunum eftir að heimsmarkaðsverð fór að lækka segir Hugi: „Álagning er auðvitað ekki föst krónutala. Þannig getur hún lækkað einn daginn og hækkað þann næsta. Í ljósi þess má því vel vera að á einhverjum tímapunkti sé álagning að hækka. Stundum er það líka þannig að við getum ekki lækkað eitthvað sem hefur ekki hækkað.“

Hann útskýrir málið nánar: „Það er jú frjáls samkeppni og það er ekki neinn sem tekur að sér ótilneyddur að hækka verðið, því sá aðili fær þá þann stimpil að hann sé alltaf fyrstur til að hækka. Þannig verður bið á hækkunum og og þær jafnvel stundum afturkallaðar án þess að það veki athygli fjölmiðla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert