Sigmar og Guðrún Sóley í morgunútvarpið

Guðrún sóley og Sigmar
Guðrún sóley og Sigmar Ljósmynd/ RÚV

Sigmar Guðmundsson og Guðrún Sóley Gestsdóttir munu stýra nýjum morgunþætti í Morgunútvarpi Rásar 2. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Ríkisútvarpinu en þar segir að morgunþátturinn muni hefja göngu sína með haustinu. 

Í tilkynningu RÚV um morgunþáttinn segir:

„Þátturinn verður snarpur frétta- og dægurmálaþáttur frá kl. 7 - 9 alla virka daga. Í þættinum verður fjallað um þau fréttamál sem hæst bera hverju sinni og púlsinn tekinn á dægurmálum og menningu líðandi stundar.“ 

Eins og greint var frá í síðasta mánuði hefur Sigmar sagt skilið við Kastljósið þar sem hann var áður ritstjóri. Í viðtali við mbl.is sagðist Sigmar ekki hugsað sér að vinna í því álagi og stressi sem fylgi Kastljósinu á meðan að hann væri að vinna að því að ná bata, en Sigmar greindi opinberlega frá baráttu sinni við alkóhólisma í maí. Sigmar er ekki að hverfa af skjánum, hann verður áfram í Útsvari ásamt Þóru Arnórsdóttur og mun auk þess sinna fleiri verkefnum fyrir sjónvarpið í vetur að því er fram kemur í fréttatilkynningu RÚV.

Guðrún Sóley var áður einn umsjónarmanna Morgunútgáfunnar á samtengdum rásum en ákveðið hefur verið að hætta samtengingu Rásar 1 og 2 á morgnana.

„Við bindum miklar vonir við að nýr morgunþáttur verði öflugt upphaf á deginum á Rás 2 og það er frábært að fá reynslubolta eins og Sigmar til liðs við Rásina.  Sigmar og Guðrún Sóley munu leiða hlustendur inn í daginn og veita innsýn í þau mál sem hæst bera hverju sinni.“ segir Frank Hall dagskrárstjóri Rásar 2 í fréttatilkynningunni.

Frétt mbl.is:

Sigmar kveður Kastljósið

Sigmar í meðferð á morgun

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert