Þingkonan Elín Hirst segir að það hafi verið skynsamleg ákvörðun hjá bankaráði Landsbankans að fresta hönnunarsamkeppni um fyrirhugaða nýbyggingu bankans. Var það gert til fara yfir þau sjónarmið sem fram hafa komið á síðustu vikum en áætlanir bankans hafa verið gagnrýndar m.a. af Elínu, þingmanninum Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra.
„Við þurfum vel rekin fjármálafyrirtæki sem stunda frjálsa samkeppni með því að nýta svigrúm markaðarins til þess að bjóða viðskiptavinum sínum betri kjör og skila eigendum sínum arði, en ekki auka yfirbygginguna. Auk þess þurfum við meira mannlíf í miðbæinn, en ekki banka, sem nær enginn þarf að heimsækja nú til dags, á dýrmætasta stað," skrifar Elín á Facebook síðu sína.