Sér mat í hillingum eftir Ermarsundið

Sigrún á sundi í gær.
Sigrún á sundi í gær. Af Facebook

„Ég hef það andlega fínt en líkamlega er ég alveg búin á því. Munnurinn allur saltur og ég get varla hreyft hendurnar en það lagast. Ég er alveg rosalega stolt og ánægð,“ segir Sigrún Þuríður Geirsdóttir en í gærkvöldi varð hún fyrsta íslenska konan til þess að synda yfir Ermarsund.

Sigrún var 23 og hálfa klukkustund að klára sundið og kom í mark í Frakklandi rétt fyrir miðnætti að íslenskum tíma.

Aðspurð hvað hún ætli sér að gera í dag er svarið einfalt. „Ég ætla að borða og borða. Ég varð sjóveik eftir að hafa synt í fimm og hálfan tíma og ég borðaði rosalega lítið. Ég lifði á kóki, jelly babies og súkkulaði í sundi og sé mat í hillingum núna,“ segir Sigrún og hlær.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sigrún tekst á við Erm­ar­sundið. Þannig synti hún á síðasta ári boðsund yfir sundið ásamt Helgu Sig­urðardótt­ur, Cor­innu Hoff­mann, Hörpu Hrund Berndsen og Sæ­dísi Rán Sveins­dótt­ur og árið 2013 með Sæk­ún­um

Grét yfir kveðjum vina og vandamanna

Eftir að hún kláraði sundið í gærkvöldi tók við þriggja tíma sigling frá Frakklandi aftur til Dover í Englandi. „Við vorum ekki komin aftur á hótel fyrr en klukkan sex í morgun þannig að ég svaf í svona fjóra tíma. Núna er ég bara búin að sitja yfir facebookkveðjum vina og vandamanna og gráta yfir öllum stuðningnum sem ég hef fengið.“

Eins og gefur að skilja var Sigrún í marga mánuði að búa sig undir sundið. „Ég er ekki alveg búin að upplifa spennufall, ég er eiginlega enn að melta þetta. Ég hef aldrei synt svona lengi í einu áður. Mesta sem ég hef synt í einu fyrir þetta voru sex tímar en nú var ég í 23 og hálfan tíma. Það er ótrúlegt að hafa haft þrek í það. En eins og ég segi alltaf þá er það hausinn á manni sem skiptir mestu máli. Ég hugsaði að á meðan ég gæti hreyft hendurnar synti ég áfram.“

Matargjafir hægðu á

Aðspurð hvað hún hafi hugsað um í sjónum segir Sigrún að fjölskyldan hafi verið henni efst í huga. „Ég hugsaði mikið um fjölskylduna mína og þakkaði fyrir það sem maður á og það að vera hraust og heilbrigð. Ég fékk líka slæmar hugsanir þegar ég var að örmagnast en þá reyndi ég bara að hugsa um eitthvað jákvætt og fallegt.“

Einu skiptin sem Sigrún hætti að synda voru til þess að borða. „Mér var reglulega réttur brúsi með bandi sem var sveiflað til mín og svo var líka búið að útbúa mál fyrir mig með banana, súkkulaði og brauði. Matargjafirnar gengu rosalega vel en tóku langan tíma. Þá hægðist á mér og mann rekur alveg rosalega langt frá bátnum því það er svo straumhart. Eftir hverja matargjöf þurfti ég að vinna upp smátíma.“

Sigrún segist efast um að hún syndi yfir Ermarsundið aftur. „Ég er ekkert hætt að synda en ég held ég fari Ermarsundið ekki aftur,“ segir hún en hún ætlar að slaka á í Dover næstu daga. „Ég var með svo frábæra áhöfn af vinum og fjölskyldu sem gerðu þetta með mér og hjálpuðu mér í gegnum þetta. Ég ætla að njóta dagsins með þeim, svo komum við heim fljótlega eftir helgi.“

Fyrri frétt mbl.is: Synti yfir Ermarsund

Sigrún Þuríður Geirsdóttir
Sigrún Þuríður Geirsdóttir Af Facebook
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert