Auður ráðin framkvæmdastjóri Samtakanna 78

Auður Magndís Auðardóttir.
Auður Magndís Auðardóttir. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Auður Magndís Auðardóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Samtakanna 78, en hún var valin úr hópi átta umsækjenda sem sóttu um starfið. Sem framkvæmdastjóri mun Auður meðal annars sjá um daglegan rekstur samtakanna, fjáröflun og eftirfylgni, upplýsingar og samskipti og hagsmunabaráttu og fræðslustarf samtakanna.

Fram kemur í frétt á vef samtakanna að Auður hafi útskrifast árið 2007 með meistaragráðu í stjórnmála-félagsfræði frá London School of Economics með áherslu á kynjafræði, þ.á.m. kynverund. Þá hefur hún BA próf í félags- og kynjafræðum frá Háskóla Íslands og stúdentspróf frá Menntaskólanum við Hamrahlíð. Auður hefur gegnt starfi verkefnastjóra Jafnréttisskóla Reykjavíkur frá 2013, þar sem hún sinnti m.a. jafnréttisráðgjöf til skóla og frístundamiðstöðva og tók þar einnig á málefnum hinsegin fólks.

Auður starfaði hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands á árunum 2007-13 þar sem hún m.a. verkstýrði mörgum verkefnum, vann kostnaðaráætlanir og bar ábyrgð á gæðum verkefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka