Aðalmeðferð hófst í morgun í Hæstarétti í máli Bandalags háskólamanna gegn ríkinu. Þar er fjallað um niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í júlí sem hafnaði kröfu BHM um að félagsmönnum þess sé heimilt að efna til verkfalls og að ákvörðun gerðardóms ráði ekki kjörum þeirra.
BHM stefndi ríkinu vegna laga sem Alþingi samþykkti um miðjan júnímánuð til að stöðva verkföll sem höfðu þá staðið yfir í 68 daga.
Alþingi setti lög á verkföll BHM 13. júní sl. Lög nr. 31/2015 ganga í meginatriðum út á það að átján aðildarfélögum BHM er óheimilt að efna til verkfalls og að kjör félagsmanna þessara félaga verði afráðin með ákvörðun gerðardóms samkvæmt lögum.
Héraðsdómur kvað upp dóm þann 15. júlí síðastliðinn að ríkinu hefði verið heimilt að setja lög á verkföll BHM. BHM áfrýjaði strax til Hæstaréttar og var málið þingfest þann 17. júlí og fékk sömu flýtimeðferð þar og fyrir héraðsdómi.
BHM telur að lögin brjóti í bága við stjórnarskrána og Mannréttindasáttmála Evrópu.