Leiguverð íbúðarhúsnæðis hefur fylgt þróun söluverðs náið eftir síðustu 4 árin eða allt frá því farið var að mæla vísitölu leiguverðs. Sé litið á svokallað „price to rent ratio“ sem er hlutfall á milli kaupverðs og leiguverðs sést að það er mjög lágt í Reykjavík sem segir okkur að það sé tiltölulega óhagstætt að leigja íbúðarhúsnæði í Reykjavík miðað við að kaupa. Þetta segir í Hagsjá Landsbankans.
Hlutfallið milli ársleigu og kaupverðs þarf að breytast mikið til þess að það sé beinlínis hagstætt að leigja. Leiguverðið þyrfti þannig að lækka um þriðjung til þess að það sé hagstætt að leigja.
Sé þetta hlutfall yfir lengri tíma í Reykjavík sést að það er mun óhagstæðara að leigja nú en löngum áður. Eina tímabilið þar sem hlutfallslega var hagstæðara að leigja var frá 2005-2008. Á þeim tíma hugsuðu flestir þó meira um að kaupa en leigja.
Sé litið á Reykjavík í samanburði við aðrar norrænar borgir kemur mikil sérstaða í ljós. Kaup/leigu hlutfallið er miklu lægra hér sem sýnir að leiguverð sé hlutfallslega hátt miðað við verð, annaðhvort er leigan hlutfallslega hærri eða söluverðið hlutfallslega lægra en gerist og gengur annarsstaðar. Hér er hægt að kaupa eign með upphæð sem nemur 13 ársleigum en í Stokkhólmi þarf næstum 40 ársleigur til.
Frá árinu 2012 hafa fyrirtæki keypt um 800 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu af einstaklingum og ætla má að fjöldi íbúða á leigumarkaði hafi hafi aukist um álíka tölu vegna þessa. Þetta voru að jafnaði um 5% af viðskiptum á þessu tímabili.