„Verslunin er handan við hornið“

Frá Vä­sterås í dag.
Frá Vä­sterås í dag. AFP

„Verslunin er bara hérna handan við hornið og ég er fastagestur, sérstaklega síðustu vikurnar enda stöndum við í flutningum,“ segir Eiríkur Örn Norðdahl rithöfundur sem býr í Vä­sterås í Svíþjóð þar sem tveir voru stungnir til bana í IKEA-verslun í dag. Verslunin er í Erikslund sem er næsta hverfi við Råby þar sem Eiríkur býr. Hann lýsir Erikslund sem verslunarhverfi á borð við Skeifuna. 

Sjá frétt mbl.is: Hnífstunga í IKEA-verslun

Eírikur og fjölskylda hans er á flutningsfæti heim til Íslands og þurfa því á ýmislegu að halda í versluninni. Litlu munaði að konan hans og tengdapabbi væru í versluninni fyrr í dag. „Konan mín fór svo út áðan með pabba sínum til að kaupa fleiri pappakassa og bóluplast – og hann ætlaði með þau í IKEA en henni finnst það alltof yfirþyrmandi staður og rellaði út úr honum að fara annað. Annars hefðu þau verið þarna,“ segir Eiríkur. 

Við búum s.s. í jaðri hverfis sem heitir Råby – en þetta gerist í Erikslund, sem er næsta hverfi. Erikslund er eiginlega svona einsog Skeifan – ekkert nema stórar verslanir.

Hann segist nú bíða nýjustu fregna af málinu en lögreglan ætlaði að halda blaðamannafund klukkan 16 á sænskum tíma en þeim fundi var frestað. „Þetta er risastór verslun og oft mikið af fólki en auðvitað erum við sem búum í hverfinu líka oft þarna. En við höfum enn ekki heyrt af neinum sem við þekkjum sem var þarna. Maður vonar auðvitað ekki,“ segir Eiríkur að lokum. 

Eiríkur Örn Norðdahl.
Eiríkur Örn Norðdahl. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert