Funduðu með hagsmunaaðilum

Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður.
Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður. mbl.is/Brynjar Gauti

Fulltrúar hagsmunaaðila í sjávarútvegi mættu á fund utanríkismálanefndar Alþingis í gær til þess að koma á framfæri sjónarmiðum sínum vegna þátttöku Íslands í viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi. Að sögn Vilhjálms Bjarnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og annars varaformanns nefndarinnar, var fyrst og fremst um að ræða upplýsingafund fyrir nefndarmenn.

Fulltrúar utanríkisráðuneytisins mættu á fund utanríkismálanefndar Alþingis nýverið og lýstu sjónarmiðum stjórnvalda og tók nefndin undir þau. Nokkur umræða hefur skapast að undanförnu um þátttöku Íslendinga í viðskiptaþvingunum vestrænna ríkja gegn Rússlandi, vegna innlimunar Rússa Krímsskaga og aðkomu að átökunum í Úkraínu, í kjölfar þess að rússnesk stjórnvöld gáfu til kynna að hugsanlega yrði Íslandi bætt á lista þeirra yfir ríki sem Rússar hafa gripið til viðskiptaþvingana gegn.

Fulltrúar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, HB Granda og Íslenskra sjávarafurða mættu á fund utanríkismálanefndar í gær að sögn Vilhjálms. Spurður hvort frekari fundur séu fyrirhugaðir segir Vilhjálmur að það sé ekki ákveðið en hugsanlega verið kallað eftir frekari upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu.

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins og annar varaformaður utanríkismálanefndar, segir að ljóst sé að miklir hagsmunir séu í húfi vegna viðskipta við Rússland og að ríkur vilji sé til þess að viðhalda góðum viðskiptasamböndum við Rússa líkt og verið hafi allt frá tímum þorskastríðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert