Hlýir dagar hafa verið fáir á landinu undanfarnar vikur og til marks um það fór hitinn síðast yfir 20 gráður fyrir rúmum mánuði, hinn 7. júlí.
„Þetta er vissulega óvenjulegt en þó ekki einsdæmi,“ segir Trausti Jónsson veðurfræðingur.
Sérstaklega hefur verið kalt fyrir austan og norðan og til marks um það er hitamet ársins á Dalatanga frá 9. febrúar, rúmlega 16 gráður. Trausti kveðst vona að Austfirðingar fá einhverja hlýrri daga á næstunni, því að á nokkrum stöðum þar hafi hlýjasti dagur ársins til þessa verið í apríl.