Heildarmagn makríls á Íslandsmiðum hefur verið meira í ár en nokkru sinni áður síðan athuganir hófust árið 2009. Þetta kemur fram í bráðabirgðaniðurstöðum Hafrannsóknarstofnunar en í gær lauk rúmlega fimm vikna löngum leiðangri rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar þar sem meðal annars var lagt mat á útbreiðslu makríls umhverfis Ísland og við Grænland.
„Verkefnið er hluti af sameiginlegum rannsóknum Íslendinga, Norðmanna, Færeyinga og Grænlendinga á dreifingu og magni helstu uppsjávartegunda í Norðaustur-Atlantshafi ásamt athugunum á magni átu og umhverfisþáttum á svæðinu,“ segir í fréttatilkynningu frá Hafrannsóknastofnun en þetta er sjöunda sumarið sem þessi leiðangur er farinn og í þriðja sinn sem Árni Friðriksson er fenginn til að rannsaka grænlenska hafsvæðið í þessum tilgangi.
Framundan er frekari úrvinnsla á gögnum úr leiðangrinum og verða helstu niðurstöður hans kynntar síðar í sameiginlegri skýrslu þeirra aðila sem komu að honum. Bráðabirgðaniðurstöður sýni hins vegar mun meira magn og suðlægari útbreiðslu makríls sunnan við Ísland en undanfarin ár. „Þá var makríll fyrir öllu Vestur- og Austurlandi í svipuðu magni og fyrri ár, en lítils var vart norður af landinu. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum er heildarmagn makríls á Íslandsmiðum meira en nokkru sinni frá því að athuganirnar hófust árið 2009,“ segir ennfremur.
Við Grænland var makríl að finna á stærstum hluta rannsóknasvæðisins og náði útbreiðsla hans
allt suður fyrir Hvarf. Makríllinn var þó á þessu svæði hnappdreifðari en fyrri ár og magn
hans minna segir í tilkynningunni.
Þá fannst síld nokkuð víða á rannsóknasvæðinu. Norsk-íslenska síld var að finna austur og norður af Íslandi og íslenska sumargotssíld fyrir sunnan og vestan. „Norður af Íslandi var vart við töluvert magn norsk-íslenskrar síldar allt vestur að Horni, en svo vestarlega hefur síldin líklega ekki gengið síðan á 7. áratugi síðustu aldar.“