Unnsteinn Jóhannsson hefur verið ráðinn upplýsingafulltrúi Bjartrar framtíðar frá og með næstu mánaðamótum. Hann mun jafnframt gegna stöðu sem aðstoðarmaður formanns flokksins.
Fram kemur í tilkynningu frá Bjatri framtíð, að Unnsteinn sé menntaður KaosPilot og stundaði nám sitt í Hollandi og Danmörku. Hann hefur verið virkur þátttakandi í ýmsum frjálsum félagasamtökum, þar á meðal Kaffibarþjónafélaginu, Skátunum og Samtökunum 78.
Unnsteinn hefur unnið sem verkefnastjóri fyrir Skátahreyfinguna og lætur nú af störfum sem framkvæmdastjóri Landssambands æskulýðsfélaga. Unnsteinn sat í 12. sæti Bjartrar framtíðar í Reykjavík. Er hann varamaður í Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar og situr í starfshópi um málefni hinsegin fólks í Velferðaráðuneytinu fyrir hönd Bjartrar framtíðar.
Árni Múli Jónasson, sem gegnt hefur starfi aðstoðarmanns formanns BF, tekur við starfi framkvæmdastjóra Þroskahjálpar um næstu mánaðarmót.