Mikil umræða skapaðist innan Facebookhóps íbúa í Vallahverfi í Hafnarfirði á sunnudagskvöldið þegar lögregluaðgerðir hófust þar vegna tilkynninga um skothvelli. Maðurinn sem handtekinn var aðfaranótt mánudags reyndist ekki vopnaður skotvopni. Af ummælum fólks á Facebooksíðu Vallahverfis virðist það engu að síður hafa verið töluvert óttaslegið.
Fyrstu fregnir bárust á Facebook um klukkan hálfellefu þegar Harpa Þráinsdóttir, íbúi í Vallahverfi, gat ekki komist heim til sín þar sem lögregla var búin að loka götum.
Hún hóf umræðuna á Facebook klukkan hálfellefu á sunnudagskvöldið. Harpa átti í erfiðleikum með að fá upplýsingar um hvers vegna búið væri að loka götum og hversu lengi þær lokanir stæðu. Hún sagði í samtali við mbl.is að sér hefði þótt betra að vita hvað væri um að vera. Ýmsar sögur voru um hvers vegna búið væri að loka hluta hverfisins. Á löngum umræðuþræði sem skapaðist í kjölfarið lýsir fólk ótta vegna aðstæðna og óvissunnar sem ríkti.
Litlar upplýsingar til fjölmiðla
Fjölmiðlum bárust ekki upplýsingar frá lögreglunni um aðgerðirnar fyrr en eftir að þeim var lokið. Lögregla setti sig hins vegar í samband við upplýsingafulltrúa Hafnarfjarðarbæjar, Steinunni Þorsteinsdóttur, sem kom upplýsingum á framfæri við íbúa Vallahverfis á Facebook. Sú tilkynning var sett inn í Facebookhóp íbúa Vallahverfis stuttu eftir miðnætti aðfaranótt mánudags, einum og hálfum tíma eftir að íbúar á Völlunum voru byrjaðir að geta sér til um hvað væri um að vera. Þá var lögregla nýbúin að hafa samband við Steinunni.
„Okkur fannst mikilvægt að stíga inn í umræðuna, því þar voru alls konar sögur og hræðsla,“ segir Steinunn. Ein kenning íbúa var til dæmis að menn með haglabyssur væru á ferli í hrauninu í Vallahverfi. „Við fengum þær upplýsingar að þetta væri einn einstaklingur, ein íbúð og það væri ekki hætta á ferð meðan fólk færi eftir fyrirmælum og héldi sig utan lokana. Það eru einu upplýsingarnar sem fóru okkar á milli.“
„Við eigum daglega í beinum samskiptum við íbúa og höfum þessar leiðir til þess. Svo skiptir máli hver kemur upplýsingunum á framfæri,“ segir Steinunn. Hún segir hins vegar allt aðra umræðu hvort lögregla hefði átt að upplýsa fjölmiðla fyrr en gert var. „Við upplifðum það að með því að setja þetta inn fannst okkur umræðan aðeins róast,“ segir Steinunn. Þrátt fyrir að að hennar mati hafi ekkert nýtt komið fram í upplýsingum hennar á síðuna hafi skipt máli hver kom þessum upplýsingum á framfæri. „Við höfum lagt mikla áherslu á góð samskipti við lögreglu og slökkvilið.“
Áhersla á að tryggja öryggi fólks
Íbúi sem blaðamaður ræddi við aðfaranótt mánudags, mjög skömmu eftir að aðgerðum lauk, sagði að lögreglumaður hefði gengið um hverfið og sagt fólki að halda kyrru fyrir heima hjá sér meðan aðgerðin stóð yfir.
Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri lögreglustöðvarinnar í Hafnarfirði, segir að lögreglan hafi sett sig í samband við íbúa á svæðinu og upplýst um aðstæður. Það fólk sem ekki hafi verið rætt við þyrfti því ekki að hafa áhyggjur, því það var ekki talið í hættu.
„Þetta er mjög þörf umræða. Þetta er í annað skiptið sem svona mál kemur upp, þar sem samfélagsmiðlarnir fara á fullt,“ segir Margeir. Fyrra málið sem hann vísar til er þegar drengirnir fóru í Lækinn í Hafnarfirði.
Fréttaknippi mbl.is: Slys í Læknum í Hafnarfirði
„Þessi umræða er eitthvað sem við getum ekki stjórnað. Við einblínum fyrst og fremst á vettvanginn og að tryggja öryggi fólks og þeirra sem að aðgerðum koma,“ segir Margeir.
Hann segir lögregluna hafa sett sig í samband við upplýsingafulltrúa Hafnarfjarðarbæjar, sem kom orðsendingu til íbúa á Völlunum. Sú orðsending var birt á Facebooksíðu íbúa í Vallahverfi á þeim tíma sem lögregluaðgerðir stóðu enn yfir. Hann segir að lögregla hafi farið til fólks í nærliggjandi íbúðum og húsum og rætt við það, eða haft samband símleiðis. „Í aðgerðunum var þetta eitt af því sem við gerðum,“ segir Margeir. Fólki var í þessu tilviki uppálagt að halda sig innandyra eða fjarri gluggum
„Við höfum allan vilja til að upplýsa fólk og erum fyrst og fremst að hugsa um öryggi þess og viljum ekki að fólk upplifi vanlíðan af því það heldur að það sé óöruggt. Fólk verður að horfa á það að aðgerðir lögreglu snúa fyrst og fremst að því að tryggja öryggi almennings þarna í kring,“ segir Margeir. „Ef við setjum okkur ekki í samband við fólk þá er það af því að við teljum það vera öruggt.“
Hann segir að í raun eigi að segja sig sjálft þegar lögregla lokar svæði af þá sé fólk öruggt utan þess svæðis sem lokað er. Hann segir auk þess að mikið viðbótarálag geti stafað af því að svara fyrirspurnum fjölmiðla meðan verið er að stýra aðgerðum á vettvangi. „Við höfum sent tilkynningar þegar allt er yfirstaðið og þá fær fólk upplýsingarnar frá fyrstu hendi. Ég get alveg tekið undir það að eflaust má þegar svona ber við láta vita og ítreka að það fólk sem lögreglan hefur ekki haft samband við er ekki talið vera í hættu. Fólk verður að treysta því að lögreglan meti það rétt. Við viljum frekar stíga skrefinu lengra í örygginu heldur en hitt. Það gerum við,“ segir Margeir.
Margeir segir lögregluna alltaf vera að aðlaga sig að breyttum samfélagsaðstæðum og samfélagsmiðlar séu einn angi af þessum breytingum.