Æfði á flugbraut fyrir heimsmeistaramót

Arna Sigríður á hjólinu sínu.
Arna Sigríður á hjólinu sínu.

Mér gekk ekkert sérstaklega vel enda var undirbúningurinn ekki góður,“ segir Arna Sigríður Albertsdóttir sem varð fyrsti Íslendingurinn til þess að keppa á opinberu heimsmeistaramóti Alþjóða hjólreiðasambandsins (UCI) í götuhjólreiðum um síðustu mánaðarmót.

Arna fór í aðgerð í júní og var því undirbúningurinn ekki sá best. „Ég vissi að ég var ekki að fara að ná verðlaunasæti en mér gekk ágætlega. Þetta var fyrsta stóra mótið sem ég keppi á og allt öðruvísi en þau sem ég hef áður keppt á.

Sjá frétt mbl.is: Keppir á handhjóli á Spáni

Áður hefur Arna keppt á mótum erlendis en erfitt hefur reynst henni að fá þátttökurétt á heimsbikarmótum þar sem Ísland hefur hingað til ekki verið aðili að Alþjóða hjólreiðasambandinu. Það breyttist hins vegar í júlí í ár. Arna lítur því björtum augum á framhaldið. Hún stefnir á að keppa á heimsbikarmóti í haust og svo fleiri á næsta ári. „Þetta gerir allt miklu auðveldara fyrir mig,“ bætir hún við.

Á heimsmeistaramótinu var keppt í bæði tímatöku (e. Time trial) og fjöldastarti og keppti Arna í báðum greinum. Mótið fór fram í bænum Notwil í Sviss. Er það helsta miðstöð svissneska landsliðisins í para-hjólreiðum (e. Para-cycling). 

„Þetta er lítill bær þar sem er endurhæfingamiðstöð fyrir mænuskaddaða. Svissnesku landsliðin í para-sporti æfa líka mikið þarna. Á mótinu voru keppendur frá 46 löndum og var keppt í mörgum flokkum. Sjálf keppir hún í handahjólreiðum en Arna hlaut mænuskaða í skíðaslysi árið 2006.

„Á mótinu var líka keppt í fleiri tegundum af hjólreiðum fyrir hreyfihamlaða, fyrir utan handahjólreiðarnar sem ég keppi á, venjuleguum götuhjólum, þríhjólum og tandem hjólum.“

Var það svolítil tilbreyting fyrir Örnu en mótin sem hún hefur áður keppt á hafa bara verið fyrir handahjólreiðar.

Róleg vika eftir heimsmeistaramótið

Reynslan af mótinu kemur sér vel fyrir Örnu sem setur stefnuna á að komast á Ólympíuleikana. „Núna veit ég hvar ég stend og hvað ég þarf að æfa, það er rosa gott að vita það. Ég stefni á að fara út að æfa snemma á næsta ári þegar það er allt í snjó hér,“ segir Arna en mikill munur er á því að æfa innandyra á trainer og að geta æft utandyra. 

Sjá frétt mbl.is: Úr hjólastól í flugstól

Eftir heimsmeistaramótið hefur Arna æft rólega en hún er nú stödd á Ísafirði hjá foreldrum sínum. „Ég er ekki með neitt sérstakt prógram þessa vikuna,“ segir Arna en þjálfari hennar, Fannar Karvel, sér um að setja upp prógrömmin fyrir hana. Hún hefur þó verið að hjóla um 15-30 km á dag. 

Arna greinir líka frá því að hún hafi fengið að æfa á flugbrautinni á Ísafjarðarflugvelli. „Pabbi minn vinnur sem sagt á flugvellinum. Þetta byrjaði um páskana þegar ég var stödd á Ísafirði og allt var í snjó. Þá var hins vegar flugbrautin auð og ég fékk að fara þangað inn. Þar er frábær aðstaða, slétt braut sem er einn og hálfur kílómetri,“ segir Arna. 

Arna Sigríður Albertsdóttir.
Arna Sigríður Albertsdóttir. mbl.is/Ólafur Már Svavarsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert