„Ekki boðlegt“

Horft yfir þjóðveg 1 við Hvalfjarðargöngin.
Horft yfir þjóðveg 1 við Hvalfjarðargöngin. mynd/Lögreglan á Vesturlandi

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri lögreglunnar á Vesturlandi, segir óboðlegt hvernig yfirborðsmerkingar séu á vegarkaflanum á milli Hvalfjarðarganga og Borgarness. Hann segir „vont að upplifa aðgerðaleysi stjórnvalda hvað varðar nauðsynlegt viðhald vega.“

Þetta kemur fram í pistli sem Úlfar skrifar á Facebooksíðu lögreglunnar á Vesturlandi í dag. 

Þar bendir hann á athyglisvert viðtal við Ólaf Guðmundsson, varaformann Félags íslenskra bifreiðaeigenda, í þættinum Í bítið á Bylgjunni í gærmorgun.

„Í viðtalinu vék hann m.a. að yfirborðsmerkingum á þjóðvegum landsins sem hann telur víða verulega ábótavant. Þegar haft er í huga að algengasta orsök umferðarslysa eru mannleg mistök er vont að upplifa aðgerðaleysi stjórnvalda hvað varðar nauðsynlegt viðhald vega. Margt að sjálfsögðu vel gert en betur má ef duga skal,“ skrifar Úlfar.

„Nærtækast fyrir mig sem lögreglustjóra á Vesturlandi er að benda á vegarkafla á þjóðvegi 1 milli Hvalfjarðarganga og Borgarness. Hraðamerkingar og þjónustumerkingar eru af skornum skammti við veginn og yfirborðsmerkingar sumstaðar horfnar eða mjög daufar, miðlínur að hverfa og kantlínur víða daufar. Ekki boðlegt,“ skrifar lögreglustjórinn ennfremur.

Í gærmorgun var athyglisvert viðtal við Ólaf Guðmundsson varaformann Félags íslenskra bifreiðaeigenda í þættinum Í bítið...

Posted by Lögreglan Vesturlandi on 12. ágúst 2015

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert