Jáeindaskanni eins og sá sem Íslensk erfðagreining var að gefa íslensku þjóðinni er nauðsynlegt fyrir heilbrigðiskerfi sem vill vera nútímalegt og vonandi mun gjöfin vera hvatning til íslenskra stjórnvalda að auka fjárframlög í kaup á frekari tækjabúnaði á komandi misserum. Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri fyrirtækisins í samtali við mbl.is.
„Við erum að gefa skanna sem passar best við íslenskar aðstæður,“ segir Kári, en hann hefur áður skrifað um að jáeindaskanni væri nauðsynlegur fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi. Hann bendir á að í ár sé gert ráð fyrir að um 200 krabbameinssjúklingar verði sendir til Kaupmannahafnar í slíkt tæki, auk þess sem einhverjir tugir Alzheimerssjúklinga fari einnig í skoðun í slíku tæki erlendis.
„Það er ekki hægt að tala um nútíma læknavísindi án svona tækis,“ segir Kári og bætir við að þetta sé vonandi ákveðin byrjun á framfaraskrefi hjá heilbrigðiskerfinu hér. Bendir hann á að þótt fyrirtækið hafi talið þetta tæki það nauðsynlegasta, þá sé enn talsvert um að nútíma tæki vanti á íslensk sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir.
Nú verður beðið eftir að viðeigandi húsnæði verði tilbúið fyrir skanna sem þennan og mun þá fyrirtækið senda inn pöntun og kaupa hann fyrir þjóðina, segir Kári. Enginn slíkur skanni hefur verið til hér á landi og kallar nýtt svona tæki á sérhæfingu starfsfólks hér á landi. Kári segist þó ekki hafa áhyggjur af því, enda sé mikið um mjög hæfileikaríkt fólk hér sem sé vel fært um að takast á við að læra á nýjustu tækin eins og jáeindaskanna.
Tækið kostar nýtt 800 milljónir, en ljóst er að það verður ekki eini sparnaður ríkisins, því með komu slíks tækis þarf ekki að greiða fyrir kostnaðarsamar ferðir sjúklinga erlendis ásamt fylgdarfólki og tilheyrandi hótelkostnaði. Segir Kári að mun hagstæðara sé að hafa jáeindaskanna til taks hér á landi og á hann von á að hann verði fullnýttur frá fyrstu dögum. Segir hann að þetta muni einnig ýta undir notkun á svona tæki og vonandi gagnast sem flestum sjúklingum.
„Við erum mjög glöð að hafa verið í aðstöðu til að gefa samfélaginu þetta og ég er himinlifandi að nú sé þetta aðgengilegt íslenskum sjúklingum“ hér á landi, segir Kári.
Í apríl á þessu ári skrifaði Kári grein í Morgunblaðið þar sem hann ræddi þörfina á jáeindaskanna og sagði mikilvægara að kaupa skanna sem þennan frekar en að halda upp á 100 ára afmæli fullveldisins með því að ljúka byggingu stofnunar íslenskra fræða. Nokkrum dögum seinna fjallaði blaðið nánar um jáeindaskanna, þar sem því var lýst hvers konar tæki skanninn væri:
„Í jáeindaskanna sameinast tvö tæki: PET (Positron Emitting Tomography) sem er myndavél sem tekur mynd af þeirri geislavirkni sem stafar frá sjúklingnum og CT (Computer Tomography) eða tölvusneiðmyndatæki sem er röntgentæki sem snýst í kringum sjúklinginn og tekur röntgenmyndir þannig að hægt sé að staðsetja geislunina. Þegar þessi tvö tæki hafa verið sambyggð kallast það jáeindaskanni eða PET/CT. Til þess að hægt sé að gera þessar rannsóknir þarf svokallaða ísótópa eða flúor 18. Það eru geislavirk efni sem eru sérstaklega framleidd til þessara nota og gerist það í tæki sem kallast hringhraðall. Hann og gerð efnanna er stærsti hluti fjárfestingarinnar og það hefur verið stærsti þröskuldurinn við að koma upp jáeindaskanna hér á landi.“