„Við höfum verið að reyna að brjótast út úr þessari kyrrstöðu og koma af stað viðræðum. Það hafa fyrst og fremst verið við sem höfum verið að leggja fram einhverjar leiðir,“ segir Gylfi Ingvarsson, trúnaðarmaður starfsmanna álversins í Straumsvík, í samtali við mbl.is en samninganefnd verkalýðsfélaga starfsmanna álversins hefur tilkynnt um afboðun boðaðs allsherjarverkfalls sem koma átti til framkvæmda 1. september 2015.
Gylfi bendir á að ítrekað hafi komið fram hjá stjórnendum álversins í Straumsvík að komi til verkfall gæti það leitt til lokunar fyrirtækisins. „Við erum auðvitað í kjarabaráttu til þess að bæta kjör starfsmanna en ekki til þess að stuðla að því að eigendur fyrirtækisins loki. Fyrir vikið var verkfallið afboðað. Það virtist hafa komið viðmælendum okkar í opna skjöldu og við ákváðum í framhaldinu að báðir aðilar færu í þá vinnu að skoða hvernig mætti nálgast þessi launamál. Við höfum sett upp vinnuhópa sitt í hvoru lagi og ætlum síðan að hittast á föstudaginn og sjá til hvers það leiðir.“
Þannig sé strax komin ákveðin hreyfing á málin. „Það hefur verið aðferðafræðin hjá okkur að finna leiðir til þess að brjótast út úr þessari stöðu og komast í alvöruviðræður. Það er það sem skiptir máli.“ Framhaldið verði síðan að koma í ljós.