Arngrímur Jóhannsson, flugmaður og fyrrverandi forstjóri flugfélagsins Atlanta, hlaut alvarleg brunasár víða um líkamann og hefur farið í aðgerð vegna sáranna sem hann hlaut í flugslysinu sem varð í Barkárdal í Hörgársveit á sunnudaginn. Í tilkynningu frá fjölskyldu hans kemur fram að Arngrímur sé enn á gjörgæslu og að líðan hans sé stöðug.
Vélin brotlenti á fjallinu Gíslahnúk í Barkárdal og lést einn maður í slysinu. Flugvélin var flutt í burtu á mánudaginn til Reykjavíkur og er nú til rannsóknar hjá Rannsóknarnefnd flugslysa.
Tilkynningu fjölskyldunnar má lesa í heild hér:
Arngrímur hlaut alvarleg brunasár á öðrum handlegg og báðum fótleggjum. Hann fór í aðgerð vegna þeirra brunasára í gær. Hann er enn á gjörgæslu og er líðan hans stöðug. Við viljum koma á framfæri þakklæti fyrir það næði sem hann hefur fengið síðustu daga. Það er nauðsynlegt fyrir áframhaldandi bata hans.