Gekk ekki lengra en réttmætt var

Fulltrúar BHM skoða niðurstöðu Hæstaréttar.
Fulltrúar BHM skoða niðurstöðu Hæstaréttar. mbl.is/Eggert

Hæstiréttur Íslands telur ekki unnt að líta svo á að gengið hafi verið lengra en réttmætt var við setningu laga á verkfallsaðgerðir átján aðildarfélaga Bandalags háskólamanna (BHM) og brotið með því gegn grunnreglu íslenskrar stjórnskipunar um meðalhóf.

Hæstirétt­ur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykja­vík­ur frá 15. júlí þar sem kröf­um BHM um að lög sem sett voru á verk­fall BHM stæðust ekki lög var hafnað. Lög­in standa því óröskuð.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að starfsemi, sem haldið hafi verið uppi á heilbrigðisstofnunum í skjóli undanþága frá verkfallsaðgerðum félaganna, hafi ekki nægt til að girða fyrir alvarlega ógn við almannaheill og réttindi alls almennings til að fá aðstoð vegna sjúkleika, sem íslenska ríkinu bæri að tryggja samkvæmt stjórnarskrá. Því hafi verið uppfyllt þau skilyrði, sem 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar fæli í sér, fyrir því að settar yrðu í lögum takmarkanir á verkfallsrétt félagsmanna í aðildarfélögum BHM.

Hæstiréttur telur að svo hafi mátt líta á að fullreynt hafi verið að ljúka kjaradeilunni með samningum þegar umræddar takmarkanir voru settar. Ríkinu hafi því mátt líta svo á að nauðsynlegt væri að grípa til lagasetningar til að ljúka henni, enda yrði ekki séð að önnur úrræði hafi staðið til boða.

Stóðu sameiginlega að aðgerðum

Í málinu deildu aðilarnir meðal annars um hvort gengið hafi verið lengra en nauðsyn bar til með því að ákvæði verkfallslaganna hafi ekki aðeins tekið til þeirra átta aðildarfélaga BHM, sem stóðu að verkföllum á þeim tíma þegar lögin voru sett, heldur til allra þeirra átján félaga, sem getið er í dómkröfum hans.

Í dómi sínum vísar Hæstiréttur til þess að félögin hafi kosið að neyta réttar samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna til að standa sameiginlega að kröfum gagnvart ríkinu, auk þess að hafa skuldbundið sig innbyrðist til að gera ekki kjarasamning við ríkið án samráðs við hin.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar beri ríkinu að virða sjálfsákvörðunarrétt stéttarfélaga í þeim efnum.

Þá taldi Hæstiréttur ljóst af gögnum málsins að aðildarfélög BHM hefðu kosið að standa sameiginlega að ýmsum aðgerðum til að knýja á um lausn kjaradeilunnar, meðal annars með samráði um beitingu verkfallsréttar. Hafi löggjöf, sem aðeins hafi náð til félgasmanna í aðildarfélögum BHM sem áttu í verkfalli við gildistöku hennar, því ekki girt fyrir að önnur félög hefðu þess í stað efnt til sams konar aðgerða í þágu heildarinnar.

Yrði einnig að líta til þess að í umræddum lögum hefði ekki eingöngu verið lagt bann við verkföllum félaganna, heldur einnig kveðið á um sérstaka skipan sem kæmi í stað kjarasamnings við þau. Hefði því eitt verið látið ganga yfir félögin öll.

Dómur Hæstaréttar

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert