Rétt ákvörðun að standa gegn Rússum

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segist sannfærður um að það hafi verið rétt ákvörðun hjá íslenskum stjórnvöldum að taka þátt í refsiaðgerðum Evrópusambandsins gagnvart Rússum.

„Það er mjög mikilvægt að það sé hægt að beita stórveldi einhverjum viðurlögum þegar þau ganga gegn rétti minni ríkja. Smáríki eins og Ísland á allt undir því að tryggja að alþjóðalög geti virkað á þann hátt. Að smáríki sæti ekki kúgun stórvelda,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Eins og kunnugt er bættist Ísland í dag á lista yfir þjóðir sem fá ekki að flytja matvörur til Rússlands.

Árni Páll segir að það hefði mátt búast við því, miðað við fréttir undanfarna vikna. „Það sem snýr að okkur er spurningin um réttmæti þeirra aðgerða sem við tókum þátt í til þess að reyna að knýja Rússa til þess að láta af framferði sínu í Úkraínu. Og ég er sannfærður um að það hafi verið rétt af okkar hálfu að taka þátt í þeim aðgerðum.“ 

Það megi síðan spyrja hvers vegna Rússar hafi ekki gripið til aðgerða gegn Íslendingum á sama tíma og þeir gerðu það gegn öðrum þjóðum. „Það stakk alltaf í augun. En vegna þess að þeir gerðu það gagnvart öðrum sem stóðu að viðskiptabanninu á sínum tíma, þá var þetta alltaf viðbúið.“

Hann segir eðlilegt næsta skref að stjórnvöld hér á landi mótmæli þessari ákvörðun og geri athugasemdir við rússnesk stjórnvöld. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert