Samkvæmt rússneska miðlinum RT hafa stjórnvöld í Rússlandi ákveðið að útvíkka innflutningsbann á matvöru þannig að það nái til Íslands, Albaníu, Svartfjallalands, Liechtenstein og að gefnum ákveðnum skilyrðum, Úkraínu.
Bannið mun aðeins ná til Úkraínu ef ríkið ákveður að styrkja efnahagsleg tengsl sín við Evrópusambandið.
„Þessi lönd hafa útskýrt ákvörðun sína um að framlengja and-rússneskar refsiaðgerðir með því að vísa í þá staðreynd að þau séu skuldbundin til þess samkvæmt einhvers konar samkomulagi við Evrópusambandið, en þetta er aðeins satt að hluta,“ er haft eftir rússneska forsætisráðherranum Dmitry Medvedev.
Hann segir fjölda ríkja með viðlíka samninga við Evrópusambandið hafa hafnað því að taka þátt í refsiaðgerðunum. Því sé um að ræða meðvitaða ákvörðun sem merki að ríkin séu undirbúin fyrir mótaðgerðir af hálfu Rússa.
Rússar hafa þegar bannað innflutning á vörum frá aðildarríkjum Evrópusambandsins, Bandaríkjunum, Ástralíu, Noregi og Kanada. Bannið nær m.a. til landbúnaðarafurða, grænmetis og ávaxta, og sjávarfangs.
Ekki hefur fengist staðfest hvort bannið nær til makríls, en Rússland er stærsti markaðurinn fyrir íslenskar uppsjávartegundir. Útflutningur fiskafurða til landsins nam 120.000 tonnum í fyrra.
Rússar hófu að farga smygluðum matvælum í síðustu viku og urðuðu m.a. 10 tonn af osti sl. fimmtudag.
Frétt mbl.is: Kaupendur úti áhyggjufullir