Þremur sendingum með vörum frá Íslandi á leið til Rússlands var snúið við eftir að Rússar settu viðskiptabann á íslenskar vörur í morgun. Þetta kemur fram á fréttamiðlinum Undercurrent News.
RÚV fjallaði fyrst um málið en þar kemur fram að sendingarnar verði látnar bíða í öðrum höfnum þar til í ljós kemur hvers eðlis viðskiptabann Rússa er og hvert framhaldið verður.
Í frétt Undercurrent News, sem sérhæfir sig í fréttum af sjávarútvegi, er haft eftir Sigurgeiri Brynjari Kristgeirssyni, framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, að það muni hafa mikil áhrif á íslenskan sjávarútveg að geta ekki selt vörur til Rússlands.
Þá hafi Nígeríumarkaður einnig reynst erfiður, en um 19% af útflutningi á makríl hafi farið þangað. „Eftir því sem ég best veit er Ísland ekki að selja neitt til Nígeríu núna.“